Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ræddi við ykkur leigubílamarkaðinn í gær en nú langar mig að tala um annað frelsismál, það frelsismál að fá að deyja með reisn. Nú á haustmánuðum vöktu félagasamtökin Lífsvirðing athygli á því að mjög mikilvægt væri að á Alþingi færu fram umræður og mótuð yrðu lög um dánaraðstoð. Félagið hélt málþing og kom m.a. fram hjá þeim að dæmi væru um að fólk svipti sig lífi þar sem það fengi ekki dánaraðstoð. Það er hræðilegt að þetta sé staðan en ég verð að viðurkenna að ég hugsaði þegar ég las þetta að auðvitað væri útkoma slík þegar ekki væru önnur úrræði til staðar. Við hjá Viðreisn höfum haft það á stefnuskránni okkar að innleiða þurfi valfrelsi varðandi lífslok þannig að við vissar vel skilgreindar aðstæður verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með þeim hætti. Að gefa sjúklingum þennan valkost byggir á virðingu fyrir rétti sjúklingsins á eigin lífi og líkama, dregur úr líkum á misnotkun og setur skýran lagalegan ramma um viðbrögð óski sjúklingur eftir dánaraðstoð.

Þetta er viðkvæmt mál og ekki endilega sú umræða sem er efst í hugum allra en þetta er mikilvægt mál og ég veit að málið hefur komið hér fram á fyrri þingum en ekkert orðið úr því. Þó að málið sé flókið viðfangs er það ekki ástæða til þess að sleppa umræðunum. Þvert á móti er það enn ríkari ástæða fyrir því að vandað sé til verka. Mikilvægt er að við mótum um þetta skýran ramma með valfrelsi og mannúð að leiðarljósi.