Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vék að þeirri þversögn í gær úr þessum ræðustól um hve mikill skortur er á vinnuafli í tilteknum geirum á sama tíma og við hrindum frá okkur árlega miklum fjölda fólks sem hingað leitar og er reiðubúið til starfa.

Nú vík ég að öðru en þó ekki allsendis óskyldu máli. Samkvæmt núgildandi lögum er fólki sem starfar á vegum hins opinbera gert að hætta störfum þegar 70 ára lífaldri er náð, algerlega óháð heilsu, getu eða atgervi, líkamlegu sem andlegu. Á sama tíma er áðurnefndur skortur á starfsfólki í fjölmörgum geirum. Orsakir þess má rekja til löngu úreltra laga frá þessum tíma þegar fólk hafði búið við heilbrigðisógnandi aðstæður og erfiðisvinnu sem leiddu til hraðara slits og öldrunar en við blasir í dag og horfði jafnvel til þess með tilhlökkun að fá að ljúka störfum. Að lifa í hárri elli er hugtak sem merkir í dag alls ekki það sama og það gerði til að mynda á síðustu öld. Sextugsaldurinn er nýi fertugsaldurinn er setning sem oft heyrist og vísar til bættrar lýðheilsu þjóðarinnar, m.a. fyrir tilstilli vitundarvakningar um mikilvægi hreyfingar, heilsuræktar, neyslu hollmetis, steinefna, fjörefna og hugleiðslu, svo nokkuð sé nefnt. Margir af ármönnum rokktónlistar sem komnir eru á níræðisaldur eru í rauninni í fullu fjöri og að því er virðist í fantaformi. Þar er að nefna Paul McCartney og Mick Jagger, sem báðir eru reyndar dæmi um menn sem stunda markvissa líkamsrækt og hollustuhætti þótt ekki hafi þeir virst neinir kórdrengir á árum áður. Þá er því stundum haldið fram að kjósi fólk að eldast hratt og markvisst sé vísasta leiðin að hætta að vinna og leggja niður störf. Að meina heilbrigðu, fullfrísku fólki að sinna störfum frá og með 70 ára aldri er tímaskekkja. Þessum úreltu lögum þurfum við að breyta. Vissulega þarf að taka mið af vilja fólks og heilsu í þessu samhengi og ekkert væri því til fyrirstöðu að bjóða mannfólkinu upp á reglubundna skoðun rétt eins og okkur ber að láta skoða ökutækin okkar árlega þegar tilteknum aldri slíkra tækja er náð.