Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í upphafi sumars barst þinginu skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu. Skýrslan var áfellisdómur yfir geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi en meginniðurstöður hennar voru að eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu vex ár frá ári. Geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu er undir væntingum. Bið eftir þjónustu er of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Þá er skortur á yfirsýn í málaflokknum og nauðsynlegar upplýsingar liggja ekki fyrir eða eru óaðgengilegar. Þá hefur stefnumótun í málaflokknum verið rýr og árangur af aðgerðaáætlun sem fylgdi stefnu í geðheilbrigðismálum 2016–2020 ófullnægjandi. Allt eru þetta afleiðingar þeirrar sveltistefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið þegar kemur að fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

Ég vil nýta þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út í geðheilbrigðisþjónustu barna, einkum og sér í lagi biðlista og fjármögnun þjónustunnar. Biðlistar sem blasa við börnum sem glíma við geðræn vandamál eru allt of langir, jafnvel svo langir að börnin verða fullorðinn á meðan þau bíða og færast þá yfir í annað kerfi og á annan biðlista.

Stuttu fyrir þinglok var samþykkt hér þingsályktunartillaga um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Þar er reyndar einungis kveðið á um aðgerðaáætlanir á meðan börn bíða eftir bráðnauðsynlegri og í sumum tilvikum lífsnauðsynlegri þjónustu. Því vil ég endurtaka spurningu mína frá því í vor og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær aðgerðir sem kveðið er á um í þingsályktunartillögu séu fjármagnaðar í fjárlagafrumvarpinu og hvort við séum ekki hreinlega runnin út á tíma. Er tími stefnumótunar og aðgerðaáætlana ekki liðin og tími tímasettra og fjármagnaðra aðgerða runninn upp?