Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[15:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra, þetta er mikilvægt mál sem við ræðum hér. En mikilvægi þessa málaflokks endurspeglast hins vegar því miður ekki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega endurspeglast mikilvægið ekki í því fjármagni sem látið er renna til geðheilbrigðismála hér á landi. Eitt örlítið dæmi sem við erum nú búin að tyggja svo oft í þessum sal að við erum öll löngu komin með leið á því: Hér var samþykkt mótatkvæðalaust að niðurgreiða skyldi sálfræðiþjónustu á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur síðan þá ekki fjármagnað nema brotabrot hennar. Þetta sýnir ekki að ríkisstjórninni finnist mikilvægt að standa vörð um geðheilbrigði þjóðarinnar, því miður.

Mig langar aðeins að nefna einn þátt geðheilbrigðisþjónustu sem við setjum of sjaldan fókus á. Það er sú ofnotkun á þvingandi aðgerðum gagnvart notendum þjónustunnar, hvort sem það er lyfjaþvingun eða að læsa fólk inni eða aðrar ráðstafanir sem endurspegla annars vegar kerfisvanda eða gamaldags hugmyndafræði og eru hins vegar viðbragð við skorti á mönnun og ónýtu húsnæði. Það er ekki boðlegt að sjúklingar í geðheilbrigðiskerfinu fái ekki notið fullra mannréttinda og fái að vera lausir undan þvingun eða pyndingum, eins og það er kallað í skýrslum OPCAT-nefndarinnar sem fer yfir þessar aðstæður. Það er ekki í boði að það fólk fái ekki sfullnustað mannréttindi sín vegna þess að ríkið tímir ekki að eyða pening í það.

Frú forseti. Ég óttast að við fáum aftur inn til þingsins sambærilegt frumvarp varðandi beitingu nauðungar í heilbrigðiskerfinu og kom frá ráðherra hér á síðasta þingi þar sem átti að lögfesta ósómann frekar en að útrýma honum.