Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:02]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda og Ingu Sæland fyrir að setja á dagskrá í dag þetta þarfa og brýna mál. Ég held að ég þekki engan í þessu húsi sem er andvígur því stórátaki sem við ræðum um að gera á sviði geðheilbrigðismála en kannski þurfum við að þjappa okkur saman um einhvers konar „sense of urgency“ svo að gripið sé til enskunnar. Þetta er sennilega brýnna mál en almennt hefur verið talið og tengist fleiri þáttum heilsuleysis en við höfum gert okkur grein fyrir. Ég er sannfærður um að mjög stór hluti af þeim sem glíma við fjölþætt vandamál, örorku, áfengis- og vímuvanda og allt slíkt eru tengd þessum málaflokki.

Ég vék að því hér í þessum stól fyrir nokkrum mánuðum að við þurftum að viðurkenna að sjúkdómar á borð við kvíða og þunglyndi eru nánast í hverri einustu fjölskyldu sem maður þekkir til og við þurfum að einbeita okkur ekki bara að því að lækna og líkna og gefa meðul og annað slíkt heldur að forvörnum og beina augum að rótum vandans. Hvað er það sem getur verið að valda þessu á svona mörgum stöðum á velmegunartímum? Ég veit að ráðherrann er með okkur í þessu. Við þurfum að vera honum stuðningur við að afla frekara fjármagns og setja þetta mál á oddinn í umræðunni um heilbrigðismál á Íslandi.