Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Þingflokkur Samfylkingarinnar lagði nýlega fram á ný þingsályktunartillögu um uppbyggingu geðdeilda. Með tillögunni er lagt til að ráðist verði í markvissan undirbúning að uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri en húsakostur beggja geðsviða er vægast sagt ófullnægjandi. Þetta er staðfest í úttekt landlæknis um réttar- og öryggisgeðdeild á Landspítala sem er ný og var skilað í síðasta mánuði, í október. Húsakosturinn verður að vera viðunandi og verður að stuðla að bata og við þurfum að setja það í forgang hér á hinu háa Alþingi að innan hins nýja Landspítala séu einnig nýjar geðdeildir, sem stuðli að bata, að starfsumhverfið sé til sóma, og að sjúklingum líði vel innan þeirra.

Frú forseti. Árið 2018 var lögð fram aðgerðaáætlun um að fækka sjálfsvígum með sex tilgreindum markmiðum og 54 aðgerðum. Því miður hafa aðeins fimm aðgerðir komist til framkvæmda á síðastliðnum fjórum árum, fimm af 54. Það hefur því miður heldur ekkert dregið úr sjálfsvígum á tíma aðgerðaáætlunarinnar. Þeim hefur þvert á móti fjölgað. Það eru einnig sterkar vísbendingar um að börn og ungmenni búi við versnandi geðheilsu hér á landi. Það kann að vera en það þarf að rannsaka hvort heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á geðheilsu barna og ungmenna til hins verra. Ýmislegt bendir til þess, a.m.k. hefur þeim sem þurfa á bráðaþjónustu BUGL að halda fjölgað um 25% frá árinu 2019 til ársins 2021. Við verðum að bregðast við. Við verðum að hafa pólitískt þrek og (Forseti hringir.) standa saman um það hér á hinu háa Alþingi að fjármagna þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar.