Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er þannig með forvarnirnar í geðheilbrigðismálum að það er ekki alltaf stimplað á þær að þær séu forvarnir. Tökum dæmi: Hér var rædd staða fólks með fjölþættan vanda, fólks sem glímir við geðsjúkdóma en í ofanálag er það haldið fíknisjúkdómi sem veldur því að það mætir fordómum hvar sem það knýr dyra í heilbrigðiskerfinu. Þessum fordómum er hægt að berjast gegn, m.a. með því að lögleiða neysluskammta vímuefna, eins og við stóðum í trú um að ríkisstjórnin ætlaði að gera. En eitthvað hefur það verkefni tafist hjá ríkisstjórninni. Með því að lögleiða neysluskammta er verið að búa til jarðveg til að draga úr fordómum sem verða ýmsum einstaklingum með fjölþættan vanda fjötur um fót.

Eins verð ég að nefna afleiðingar ofbeldis. Ofbeldi veldur geðrænum vanda hjá þeim sem fyrir verða. Ég vil sérstaklega nefna einn hóp og vitna þar til orða sem voru látin falla í dag á landsamráðsfundi um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Tótla Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78, var að tala um það sem er ekki hægt að kalla annað en hatursfaraldur gegn hinsegin ungmennum sem tröllríður samfélaginu. Það séu búnar til haturssíður á netinu gegn einstaklingum, ofbeldið hafi oft verið svo svæsið að sumir hafi framið sjálfsvíg. Sumir hafa framið sjálfsvíg vegna þess að við bjuggum þeim ekki það örugga umhverfi sem við héldum að væri svo sjálfsagt. Eins og Tótla segir þá er sérstaklega erfitt að horfa upp á þetta því að þetta átti að vera frjálsa kynslóðin, fólkið sem gæti komið út úr skápnum í opið og frjálslynt samfélag og lifað lífinu eins og það er. (Forseti hringir.) Það að hafa ekki brugðist fyrr við uppgangi hatursorðræðu í samfélaginu er lýðheilsuvandi, það er ábyrgðarhluti.