Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland kærlega fyrir þá umræðu sem við eigum hér í dag. Mig langaði til að ræða um orð Landssamtakanna Geðhjálpar sem hafa um langt árabil bent á þau augljósu sannindi að geðheilbrigðiskerfið okkar er einfaldlega vanfjármagnað. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem kom út í vor, kemur þetta mjög skýrlega fram. Fjárframlög til geðheilbrigðismála eru tæp 5% af heildarframlögum til heilbrigðismála en umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins er fjórðungur þess. Það blasir við að það vantar verulega upp á fjármögnun.

Mig langaði líka til að tala sérstaklega um forvarnir af því að við sjáum einfaldlega í tölunum að þar þarf að gera betur. Hvers vegna hefur öryrkjum vegna geðrænna áskorana fjölgað um 250% síðastliðin 30 ár? Hvað er það í samfélagsgerðinni sem veldur? Mér finnst skipta máli að við ræðum um forvarnir í samhengi við fyrstu árin í lífi barna, um mikilvægi þess að við gefum börnum og foreldrum þeirra þá umgjörð og þann stuðning strax frá byrjun að börn alist upp við öryggi og traust. Efnahagslegar aðstæður skipta miklu í því samhengi. Hvernig styðjum við sem samfélag við fjölskyldur? Hvernig eru leikskólakennarar, grunnskólakennarar og annað starfsfólk undirbúið fyrir sitt mikilvæga starf og hvernig er að þeim búið í starfi? Hvers vegna líður börnum verr í dag en þeim leið fyrir tíu árum? Hérna sjáum við að það þarf að gera betur. Í grunninn er þetta ekkert sérstaklega flókið og snýst um að það þarf ekki bara að semja stefnu, það þarf að fjármagna hana. Þetta sjáum við skýrlega í geðheilbrigðisáætlun til 2030 þar sem gerð er mikilvæg tilraun til að forgangsraða í málaflokknum. En ég sé því miður ekki í fjárlögum fyrir næsta ár að það sé að verða marktæk breyting á áherslum hvað varðar geðheilbrigðismál og það er mikið áhyggjuefni.

Við erum með stefnu, forseti, en hún er ekki fjármögnuð. Það er kjarni málsins.