Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Geðheilbrigðisþjónusta.

[16:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að ítreka þakkir til málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, og þakkir fyrir þessa umræðu. Ég myndi gjarnan vilja bregðast við öllum þeim spurningum sem komu hér og umræðum hv. þingmanna. Það blikkaði svolítið fjármögnunin og biðlistarnir og svo samspil við aðra sjúkdóma og hversu víðfeðmt þetta svið er. Mér finnst við þó hafa borið gæfu til, og það finnst mér þessi umræða bera með sér, að lyfta umræðunni nú á síðustu árum. Mér finnst mikill munur á því, þau tíu ár sem ég hef verið í þessum sal, hvernig umræðan er. Það er meiri þekking á bak við allar ræður hv. þingmanna og það birtir okkur um leið hversu umfangsmikið viðfangsefnið er. Það hefur margt verið vel gert, geðheilsuteymin eru dæmi þar um, og það er aukið fjármagn í málaflokkinn. Ég tek undir með hv. þingmönnum þegar að því kemur að það þurfi að skilgreina betur, og þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, það sem fer beint í málaflokkinn og það sem fer óbeint í hann þannig að við getum greint betur fjármagnið á bak við allan skalann, frá forvörnum og yfir í þessi þyngri úrræði.

Varðandi bráðamóttökuna þá er mjög mikilvægt að hún sé opin allan sólarhringinn, hún er hugsuð þannig. Það er rétt að móttakan á Hringbraut er opin 12–19 á virkum dögum og 13–17 á frídögum en þá tekur bráðamóttakan í Fossvogi við og er í sambandi við bráðalæknana þar og starfsfólk í geðþjónustu og samvinna á að vera þar á milli. Ég sé að rauða ljósið blikkar og við erum rétt að byrja — eða þá að sá sem hér stendur talar of hægt, hæstv. forseti.