Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að tíminn vinnur ekki með okkur, eigi afsökunarbeiðnin að ná til þeirra kvenna sem þarna voru vistaðar. Þess vegna nefni ég það m.a. að það sé í sjálfu sér ekki þannig að ljúka þurfi opinberri rannsókn til að stjórnvöld geti beðist afsökunar. Við þekkjum atvik máls nægilega vel. Ég held hins vegar að það sé mikilvægur hluti af því að gera málið heildstætt upp að fara í slíka rannsókn. Ég vil líka nefna að afsökunarbeiðni hefur þýðingu fyrir aðstandendur, fyrir börn, ættingja og aðstandendur þeirra kvenna sem í hlut eiga. Það er líka mikilvægt að gera svona sögu upp því að sagan ætti að kenna okkur að það á aldrei að líta svo á að mistök sem þessi geti ekki endurtekið sig. Við höfum séð umfjöllun um að samskipti kvenna og stúlkna við erlenda hermenn sköpuðu ólgu í samfélaginu. Almenningsálitið var mjög afdráttarlaust í fordæmingu sinni gagnvart þessum konum og stelpum. Það má velta fyrir sér þætti fjölmiðla í því samhengi og það er líka þáttur sem þarf að gera upp; fjölmiðlarnir sjálfir, hvernig þeir sögðu frá þeim samskiptum og hvaða orðanotkun var beitt gegn þeim sem í hlut áttu. Það er bara svo margt þarna sem er sorglegt en um leið áhugavert eins og njósnir sem hafi náð til stúlkna niður í 12 ára aldur. Það eru börn. Það er því ekki svo að þessar aðgerðir stjórnvalda hafi eingöngu beinst að konum í samskiptum við karlmenn, ekki að það réttlæti eða bæti hlutina, en þarna undir voru hins vegar líka börn.