Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Hér er um mikilvægt mál að ræða og ég er meðflutningsmaður þess. Ég tel rétt að rannsaka þá atburði sem áttu sér stað á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum. Ég hef lesið greinargerðina og tók eftir ákveðnu misræmi hjá framsögumanni og það kom líka fram í andsvörum. Hann talar um kynþáttastefnu, að það hafi m.a. verið undirrótin, og kynþáttahyggju. Ég er algerlega ósammála því. Ég spyr hv. þingmann: Hvað hefur hann fyrir sér í því að vera að fjalla um kynþáttahyggju og kynþáttastefnu varðandi þetta mál? Ég fæ hreinlega ekki séð það, hvorki í greinargerðinni né í málinu sem heild. Nú voru amerísku hermennirnir sem komu hingað nánast allir hvítir karlmenn og bresku hermennirnir líka. Ég tel að það sé hins vegar verið að blanda hlutum saman. Ef við ætlum að tala um kynþáttastefnu og kynþáttahyggju á þessum tíma þá væri rétt að ræða það, og rétt að rannsaka það líka, hvernig íslensk stjórnvöld komu fram við gyðinga sem voru hér flóttamenn, hvernig þau neituðu að taka á móti gyðingum. Það er kynþáttahyggja og það á ekki bara við um Ísland. Í Bandaríkjunum var líka neitað að taka á móti fólki, m.a.s. fólki sem var komið í höfn í Miami og þurfti að sigla þaðan burtu í útrýmingarbúðir gyðinga. Það er kynþáttahyggja. En ég get ekki séð það í þessu máli. Ég tel að í þessu máli séum við að tala um íslenska sveitasamfélagið og kúgun lágstéttanna á Íslandi sem átti sér stað með þessum hætti og hversu gróft brot á friðhelgi einkalífs átti sér stað hér með njósnum um 500 konur á aldrinum 12–61 árs. Við erum líka að tala um gróft brot og illa meðferð á þeim stúlkum sem voru á hælinu á Kleppjárnsreykjum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hversu margar af þessum 14 stúlkum séu enn á lífi. Ég vil líka taka fram að ég tel þetta mikilvæga rannsókn vegna þess að einungis er búið að aflétta leynd á hluta af þessum gögnum. Þriðja spurning mín er því: Veit hv. þingmaður af hve miklum hluta af gögnunum er ekki búið að aflétta leynd?