Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl.

30. mál
[16:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það getur vel verið að það hafi komið fram í þessari heimildarmynd. Mig minnir að ég hafi séð hana á sínum tíma, en ég man ekki nákvæmlega eftir þessu atriði varðandi kynþáttahyggjuna. Það breytir því ekki að þetta kemur ekki fram í greinargerðinni og ég er bara innilega ósammála því að kynþáttastefna hafi legið þarna undir, hvað varðar ástandið. Ég held að kynþáttahyggja hafi ekki legið þar undir.

Varðandi hinn íslenska kynstofn — eða hvað á að kalla fólk sem býr hér á 103.000 km² eyju í Norður-Atlantshafi. Við getum talað um norræna kynstofninn, norræna menn og Engilsaxa og það allt en 1/3 Norðmanna flutti til Bandaríkjanna og 1/4 Íslendinga, og þetta voru hvítir karlmenn. Við getum verið ósammála um að kynþáttahyggja hafi verið drifkrafturinn á bak við þetta. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið íslenskt samfélag, að sveitasamfélagið hafi einfaldlega ekki ráðið við þegar nútíminn kom með amerískum hermönnum, sem leiddi til upphafs nútímans á Íslandi.

Það er líka erfitt, og vonandi mun þessi rannsókn taka til þess, að dæma eldri tíma með mælistiku okkar í dag. Ég tel mikilvægt að líta til þess. En það á eftir að aflétta leynd af gögnum og ég vona að ef þetta mál verður samþykkt muni rannsóknarmenn komast í þau gögn sem eru lokuð. Er það ekki rétt skilið? Það væri gott að heyra álit framsögumanns á því. Ég tel það vera grundvallaratriði.

Ég tel mjög mikilvægt, ég tek undir það sem kom fram í máli Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur áðan, að opinberir aðilar, íslensk stjórnvöld, biðjist afsökunar á þessu framferði sem er mjög mikilvægt að rannsaka. Og þau geta gert það án þess að rannsóknin fari fram. Það liggur þegar fyrir hvernig framkoman var gagnvart þessu fólki, stúlkunum 14, og líka að það var verið að njósna um 500 stúlkur og þær voru allar af lægri stigum. Önnur spurning er sú hvort (Forseti hringir.) þarna sé ekki meira verið að kúga ungar stúlkur af lægri stéttum og hvort það sé ekki líka mikilvæg rannsókn (Forseti hringir.) svo að slíkt endurtaki sig ekki, bæði í fjölmiðlaumræðu og líka hvað varðar stjórnvöld. (Forseti hringir.) Svona mál mega ekki gleymast og stjórnvöld mega ekki komast upp með það að svona gerist aftur.