Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir það með honum að þó að við séum kannski frekar smá, eða alla vega fámenn, hér á landi þá getum við leyft okkur að hugsa stórt í þessum málum sem og mörgum öðrum. Við eigum hér framúrskarandi heilbrigðisvísindafólk og við eigum öflug fyrirtæki, eins og t.d. DeCode eða Íslenska erfðagreiningu sem er hágæðafyrirtæki á sínu sviði. Ég veit að þessi fyrirtæki eru að horfa til rannsókna á sílósíbíni og eru að rannsaka mörg önnur efni. Við erum gott mengi, það er hægt að fá mjög mikinn fjölbreytileika og margar upplýsingar þar sem við getum tekið svo stórt hlutfall af heilli þjóð í rannsóknum af þessu tagi og nálægðin er mikil o.s.frv. Ég held því að við getum lagt mikið af mörkum fyrir heiminn með því að taka okkur stórt pláss í þessari umræðu og þessum rannsóknum. Það yrði tekið eftir því út um allan heim og það getur aðstoðað aðra en mun fyrst og fremst veita mörgum af þegnum okkar lausn sinna áskorana hvað varðar geðheilsu.