Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Flutningsmenn, ásamt þeim sem hér stendur, eru hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Þingsályktunartillagan hljóðar svo — og má geta þess, virðulegi forseti, að ályktunin sjálf lætur ekki mikið yfir sér en í mínum huga og flutningsmanna er um verulega stórt mál og mikilvægt að ræða:

„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.“

Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni er gerð nokkuð ítarleg grein fyrir því hvað felst í tillögunni. Það er nú einu sinni þannig að við erum eyja úti í miðju Atlantshafi og erum háð flutningum til landsins á aðföngum, matvælum og fleiru. Þessar flutningsleiðir geta raskast og það þarf ekki meira til en einhverjar náttúruhamfarir. Við þekkjum þau áhrif sem heimsfaraldurinn, sem nú er nýafstaðinn að mestu leyti, hafði og við sjáum því miður ekki enn fyrir endann á stríðsátökum í Úkraínu, öllum þeim ósköpum. Slík atriði geta haft veruleg áhrif á flutningsleiðir til landsins og valdið því að allir flutningar stöðvist. Áhrifin blasa við. Það hefur verið skortur á kornvöru, orkuverð hefur hækkað o.s.frv. Lengi vel var ekki hægt að flytja kornvöru frá Úkraínu, sem er einn stærsti kornvöruframleiðandi í heimi. Þetta er að gerast allt í kringum okkur og við þurfum að bregðast við.

Í skýrslu sem forsætisráðherra lét gera, sem kom út í haust og var lögð fyrir Alþingi, um neyðarbirgðir, kemur fram svart á hvítu að staðan hér á landi er langt frá því að vera viðunandi. Verkefnið er ærið. Það þarf að kortleggja stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Við þurfum að byggja upp fyrirkomulag sem tryggir að nægjanlegt magn afurða sé til hér á hverjum tíma og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Við getum séð það fyrir okkur að fyrirkomulagið getur falið það í sér að ríkisvaldið grípi inn í í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum eða framleiðendum til að tryggja birgðahaldið. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum og handan Atlantsála, í Evrópusambandinu, er þessu óhikað beitt ef eitthvað bjátar á í umhverfinu. Hvort sem um er að ræða uppskerubrest eða stríðsátök þá er þessu beitt þar. En svona aðgerðir virka mismunandi á framleiðsluvörur okkar. Við þekkjum að geymslutími landbúnaðarafurða getur verið ærið misjafn og því þarf að haga seglum eftir vindi, hvernig við tökum á því. Það er tiltölulega lítið mál að frysta kjöt og fisk en grænmeti og mjólkurafurðir hafa mun minna geymsluþol. Þetta þarf allt að skoða í stóru samhengi.

Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér árið 2021 var fjallað um fæðuöryggi þjóðarinnar og hvað þurfi til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum mjög háð innflutningi á ákveðnum vörum, t.d. á aðföngum eins og áburði og olíu, til þess að geta framleitt vörurnar hér innan lands. Það fyrirkomulag sem er lagt til í þessari tillögu snýr að því að það kerfi sem komið yrði á myndi tryggja að hægt væri að framleiða meira af landbúnaðarvörum hérlendis og við ættum þá ákveðið umframmagn, ættum birgðir miðað við hefðbundna neyslu, ættum birgðir í einhverja mánuði af vissum vörum. Við yrðum samt alltaf að taka tillit til geymsluþolsins.

Eins og staðan er í dag erum við svo sem ekki með neina stjórn á þessu. Það eru bara markaðslögmálin sem ráða því hvað er til á markaði og við höfum verið vön því að flutningsleiðir hafa verið greiðar. En staðan er því miður breytt og við þurfum að bæta úr. Við getum séð það fyrir okkur að í samningum, sem þarf auðvitað að gera milli framleiðenda og ríkisins, þurfi væntanlega að greiða framleiðendum fyrir að geyma vöruna í einhvern tíma og ríkið þyrfti þá að koma þar inn í. En við þurfum alltaf að passa að slíkt hefði ekki áhrif á verðmyndun á markaði. Það þarf líka að taka það til greina þannig að menn þurfa að vanda sig þegar að þessu kemur, og þetta gerist ekki einn, tveir og þrír.

Síðan er það gríðarstór þáttur, sem við höfum svo sem verið að ræða hér í þessum sal og er töluvert rætt, sem snýr að kornræktinni. Þar eigum við inni gríðarleg sóknarfæri og eins með útiræktun á grænmeti, þar getum við gert enn betur. En það skortir innviði, sérstaklega hvað varðar framleiðslu á korni. Við þyrftum að fara í að byggja upp kornsamlög sem gætu þá tekið við korni og geymt það. Ríkisvaldið þarf að koma að þeirri uppbyggingu, annað er óhjákvæmilegt. Við getum horft til þess í því samhengi að það yrði þá bæði til manneldis og í skepnufóður. Þetta eru feiknalegar fjárfestingar sem þarf að fara í en það er samt gríðarlega mikilvægt að menn taki þetta alvarlega. Okkur hættir til að fara að hugsa um fæðuöryggi þjóðarinnar þegar neyðin er stærst en við þurfum alltaf að vera viðbúin.

Í þessu samhengi þarf margt að fylgja með. Fyrir tveim dögum var tryggingavernd bænda til umræðu. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram fyrirspurn til matvælaráðherra og þar sköpuðust góðar umræður. Þetta er einn þáttur sem þarf að koma inn í þetta spil. Við þurfum líka að horfa til þess að starfsskilyrði bænda eru verulega misjöfn og þau þarf að treysta til þess að fá framleiðsluviljann enn frekar fram en er í dag og tryggja að við getum framleitt allar þær vörur sem eru inni í myndinni í þessu samhengi, hvort sem það er grænmeti, korn, kjöt, mjólk o.s.frv.

Virðulegur forseti. Það er svo sem hægt að ræða þetta í langan tíma. Að lokum vil ég bara segja: Við erum búin að taka þessa umræðu um fæðuöryggi þjóðarinnar og þetta mál er nátengt þeirri umræðu. Við tókum 1. umr. um þetta 9. febrúar árið 2022. Sú umræða fór ekki hátt þá en ekki liðu margir dagar þar til innrás Rússa í Úkraínu varð að veruleika þann 24. febrúar. Mjög fljótlega fóru menn að ræða fæðuöryggi þjóðarinnar af fullri alvöru. Það er hverri þjóð gríðarlega mikilvægt að vera sjálfbær um sem flesta hluti. Það er tiltölulega einfalt að stökkva út í búð og kaupa í matinn en menn gleyma því oft að ferillinn sem á sér stað áður en matvaran kemur í kjörbúðina getur verið ansi langur. Það er engan veginn sjálfgefið að hlutirnir verði allir eins á morgun og þeir voru í dag. Menn þurfa alltaf að hugsa þannig, að hugsa eins og gildir bændur gera, en þeir eiga forða fyrir veturinn til að fóðra skepnur sínar og hugsa um að framleiða heilnæm og góð matvæli.

Virðulegi forseti. Það gleður mig mjög að sjá áhuga þingmanna á þessari þingsályktunartillögu og kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Það verður fróðlegt að fylgja henni eftir. Þegar umræðu verður lokið gengur þessi þingsályktunartillaga væntanlega til hv. atvinnuveganefndar og kemur þar til umfjöllunar ásamt mörgum öðrum spennandi málum sem snúa að framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi. Ég held ég hafi þetta ekki lengra. Ég vil enn og aftur koma þökkum til þeirra þingmanna sem standa að þessari tillögu.