Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[17:59]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að eiga gildan og mætan bónda á þingi og það úr einu blómlegasta landbúnaðarhéraði Íslands; hann þekkir greinina betur en flestir aðrir hér í þessum sal. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir þá góðu tillögu sem hér er lögð fram sem ég styð heils hugar. Það er skrifað í skýin það sem hér blasir við og hann hefur tíundað með ágætum. Við eigum að stíga þessi skref markvisst. Aðstæður í heiminum eru ógnvænlegar en kunna að fela í sér ákveðna dulbúna blessun fyrir okkur sem höfum verið að hika við að verða matvælaframleiðsluþjóð á háum skala með sjálfbærum hætti og sjá til þess að hér verði enginn matarskortur hvað sem á dynur. Ef þetta er það sem þurfti til að ýta við okkur þá er það svo en við eigum, að mínu mati, að ganga lengra en að huga að kjöt-, mjólkur- og kornframleiðslu. Við eigum að nýta okkur þá grænu orku sem við eigum gnægð af. Við eigum að færa sem næst orkuverunum ylframleiðslu á grænmeti og hollmeti sem við höfum verið að flytja inn í allt of miklum mæli; við getum líka verið sjálfbær í þeim efnum. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að við eigum að stíga skrefin stór og markviss í þessum efnum.