Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við eigum að stíga enn frekari og stærri skref í þessu samhengi, sem snýr að því að nýta okkar grænu orku í framleiðslu, eins og við gerum í dag. Við framleiðum allt að 40% af því grænmeti sem er á boðstólum í dag og þá fyrst og fremst tómata, gúrkur og paprikur. Við getum bætt mikið í. Það eru einhverjar tilraunir og eitthvað verið að prófa varðandi framleiðslu á ávöxtum. Það er snúnara mál en væntanlega verður það hægt í einhverri framtíð, eins og maður segir. Það kom fram í máli hv. þingmanns að við eigum að nýta okkur þau tækifæri sem við höfum, nota þær gjafir sem landið okkar gefur okkur. Við erum ekki að nýta landið nema að litlum hluta. Við eigum alveg ofboðslegt magn af ræktanlegu landi sem við erum ekki að nota. Við getum bætt verulega í þegar kemur að ylræktinni, þ.e. í grænmetinu, og ég vil enn og aftur minna á möguleika okkar til kornræktar og útiræktunar á grænmeti en þá þarf öll þessi umgjörð líka að koma til eins og ég hef talað um áður og kom fram í máli mínu áðan.