Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir framsögu á þessu mikilvæga máli. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að við sem þjóð tryggjum fæðuöryggi okkar. Það er líka mikilvægt að við gerum það á vel úthugsaðan hátt. Þegar ég var að alast upp heyrði maður oft í fjölmiðlum orð eins og smjörfjall og kjötfjall. Ég veit ekki alveg hvernig þau fjöll voru en það voru alla vega til miklar birgðir af óseldu kjöti.

Mig langaði því í fyrra andsvari mínu að spyrja hv. þingmann: Nú er eitt að safna birgðunum en eins og hv. þingmaður benti á er t.d. einungis hægt að geyma kjöt í ákveðið langan tíma. Okkur langar sennilega ekki mikið að borða tíu ára fryst lambakjöt. Hvaða aðferðir sér hv. þingmaður til að viðhalda þessum birgðum? Og hvað gerist þegar kannski er nægt framboð af fersku kjöti á markaði og einhvern veginn þarf að endurnýja birgðirnar? Nú hefur maður séð í öðrum löndum að þar hafa slík matvæli verið nýtt til að veita aðstoð erlendis, eða jafnvel innan lands. Kjötið hefur einfaldlega verið keypt af stjórnvöldum og gefið til hjálparstarfs. Mig langaði að vita hvaða hugmyndir hv. þingmaður sér í kringum þessa endurnýjun á birgðahaldi og hvernig því er háttað.