Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Kortlagning og í hve langan tíma eigi að geyma afurðirnar í frysti og þess háttar — þetta eru allt verulega góðar og fínar spurningar og eru hluti af þeirri vinnu sem þarf að fara í í framhaldinu. Það þarf að viðhalda vissu magni innan lands og auðvitað þarf að taka af þessum birgðum en ekki geyma þær til 10 ára þannig að afurðirnar verði ónýtar, það er ekki tilgangurinn með þessu. Hver ætti að sjá um það — hv. þingmaður minntist á þjóðaröryggisráð og ég held að það sé ágætur vettvangur til að ræða þessa hluti. Auðvitað tengist þetta fyrst og fremst þjóðaröryggi og þá forsætisráðherra, sem er höfuð ríkisstjórnarinnar, og þjóðaröryggisráði í framhaldinu.

Við skulum ekki fara fram úr okkur. Við erum að fjalla um neyðarbirgðir sem snúa að matvælaframleiðslu hér innan lands og þingsályktunartillagan fjallar fyrst og fremst um það. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi olíu á dráttarvélar og önnur aðföng og það er komið frekar vel inn á það í skýrslunni um neyðarbirgðir, sem forsætisráðherra lét gera og við fórum yfir í október. Þar geta menn sér þess til hve mikið þarf að vera til af olíu o.s.frv. En við erum fyrst og fremst í þessari þingsályktunartillögu að fjalla um hvernig við eflum innlenda matvælaframleiðslu til að við þurfum ekki að treysta á innflutning á öðrum vörum. Heimafenginn baggi er alltaf bestur, hv. þingmaður.