153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

dýravelferð.

[10:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum hvernig aðbúnaður dýra hefur verið í Bæjarsveit í Borgarfirði, á tveimur bæjum í Borgarfirði, eiginlega svo ömurlegt og hryllilegt að það er varla að maður geti komið orðum að því. Mig langar þess vegna að beina fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra sem er jú sá ráðherra sem ræður nákvæmlega yfir þessum málaflokki, sem er yfirmaður Matvælastofnunar, MAST. Það er á hennar vakt nákvæmlega þar sem staðan í Bæjarsveit er eins og Steinunn Árnadóttir lýsti á fésbókarsíðu sinni í gærmorgun. Þar sem segir, með leyfi forseta:

„Staðan í Bæjarsveit í morgun, 9.nóvember: Nautgripir eru heylausir og vatnslausir. Hestar sem fluttir voru úr Borgarnesi á sunnudagskvöld og sameinaðir horuðu nautgripunum standa í drullu á smá túnbletti. Einn hestur liggur. Sennilega dauður. Fóðrið sem þau fá eru margra ára gamlar heyrúllur. Þá á eftir að tala um þá 100–200 nautgripi sem eru læstir inni og hafa ekki sést í þrjú ár.“

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega orðin svo andaktug yfir því hvers lags eiginlega slugsugangur er hér á ferðinni. Hvernig stendur á því að við þurfum að þola það, raunverulegir dýravinir og Íslendingar og íslenskur almenningur og fólkið sem býr í námunda við þessa bæi, þar sem í raun og veru — ég hef verið að tala við allnokkra einstaklinga — eru mismunandi há veinin sem koma út úr fjósinu þarna? Þau eru mismunandi hungruð greinilega, blessuð dýrin.

Ég bara spyr hæstv. matvælaráðherra: Hvenær ætlar hún að nýta sér það umboð og það vald sem hún hefur til að taka raunverulega á því augljósa dýraníði sem allir í landinu virðast koma auga á sem láta sig það varða nema hún?