153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

dýravelferð.

[10:35]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og það er sannarlega rétt að þessi málaflokkur, dýravelferðarmál, heyrir undir mig. Það var raunar þannig að þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra á sínum tíma þá mælti ég fyrir frumvarpi til laga um dýravelferð þegar málaflokkurinn var síðan fluttur til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og hv. þingmaður veit þá er því þannig fyrir komið að öll framkvæmd er í höndum Matvælastofnunar og í ljósi kæruheimilda sem eru til í lögum þá get ég ekki tjáð mig um einstök mál, eins og það er nú skemmtilegt svar eða hitt þó heldur. En það er staðan.

Hins vegar hef ég, í ljósi þess yfirstjórnunarhlutverks sem ég hef sem ráðherra, ákveðið að nota heimildir í lögum um Stjórnarráð Íslands til þess m.a. að fá frekari upplýsingar frá Matvælastofnun um verkferla, upplýsingagjöf og hvort Matvælastofnun telur sig skorta heimildir. Bréf þessa efnis var sent á Matvælastofnun 25. október og ég vænti þess að fá svar á næstu dögum.

Ég vil líka geta þess, og ég fagna því, að Ríkisendurskoðun hefur hafið frumkvæðisathugun á dýraverndar- og dýravelferðarmálum í landinu í ljósi þeirrar umræðu sem uppi hefur verið. Það hvílir mikil ábyrgð á umráðamönnum dýra samkvæmt lögum. Það fylgir því mikil ábyrgð að annast dýr þannig að velferð þeirra sé tryggð. Ég er sammála því að svo sé og ég mun gera og hef gert það sem í mínu valdi stendur til að beita þeim heimildum sem ég hef samkvæmt lögum til þess að tryggja að borin sé virðing fyrir dýrum.