153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

viðhald á kirkjum.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Af hálfu ríkisins og reyndar einnig af hálfu kirkjuþings hefur verið lögð áhersla á það að ganga lengra á undanförnum árum í fjárhagslegum aðskilnaði ríkis og kirkju. Af þeim sökum þá tel ég að það myndi geta flækt aftur fjárhagslegu samskiptin ef við færum að taka upp eldri samninga og endurmeta þá með þeim hætti sem hérna er verið er að vísa til. Ég gef mér að hérna sé verið að vísa sérstaklega til þess þegar Alþingi ákvað að halda sóknargjöldunum lægri á eftirhrunsárunum og kirkjan lýsti því yfir að hún vildi sýna því skilning þegar samfélagið allt þurfti að finna leiðir til að komast í gegnum erfiðasta tímann eftir fall fjármálafyrirtækjanna. Ég deili hins vegar áhyggjum hv. þingmanns af því að eignir sem geyma mikil menningarverðmæti skuli liggja undir skemmdum í einhverjum tilvikum og við þurfum sem samfélag að svara því með hvaða hætti við viljum bregðast við. Það kann að vera rétt í einhverju víðara samhengi, kannski ekki eingöngu vegna kirkna, að ríkið hafi úrræði upp á að bjóða til þess að viðhalda slíkum menningarverðmætum. En ég hygg að við séum sammála um að það væri mikill skaði að því fyrir samfélagið allt ef þessi þróun héldi áfram sem hv. þingmaður er að vísa til.