153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjávarútvegsdagur SFS.

[10:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þann 25. október síðastliðinn héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sjávarútvegsdaginn. Þremur einstaklingum var boðið að koma fram og ávarpa fundinn og meðal þeirra sem fram komu voru Þorsteinn Már Baldursson, forstjóri Samherja, og hæstv. matvælaráðherra. Ákvörðun um að bjóða forstjóra Samherja að ávarpa fundinn hefur sætt gagnrýni, enda er um að ræða forstjóra fyrirtækis sem er beinlínis grunaður um að flytja út íslenska spillingu og hefur réttarstöðu sakbornings hérlendis og annars staðar vegna ætlaðra stórfelldra mútubrota og skattsvika. Með þessari dagskrá heiðruðu SFS manninn sem hefur gengist við því að hafa gengið allt of langt í ófrægingarherferð sinni gagnvart þeim blaðamönnum sem komu upp um óskundann hér um árið.

Þorsteinn Már nýtti tækifærið og tjáði ráðherra og öðrum fundargestum að eitt helsta vandamál íslensks sjávarútvegs væru veiðiheimildir til smærri útgerða og strandveiða, að þær ógnuðu stöðu hans eigin fyrirtækis og íslenskrar stórútgerðar á alþjóðlegum mörkuðum. Þessi skilaboð til strandveiðimanna eru heldur hjákátleg eftir þann mikla orðsporshnekki sem gjörðir Þorsteins Más í Namibíu ollu íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Ráðherra hefur sjálf sagt að það ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti innan sjávarútvegsins. Ég leyfi mér að bæta við að sú tilfinning stafar eflaust ekki síst af því að aðilar í stórútgerðinni virðast komast upp með nánast hvað sem er án sjáanlegra afleiðinga.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða skilaboð finnst henni SFS vera að senda samfélaginu með því að bjóða Þorsteini Má að halda þetta erindi sitt á fundinum?