153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjávarútvegsdagur SFS.

[10:47]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Bara svo forsaga málsins og minnar aðkomu að þessu sé rakin lítillega þá var það svo að upplýsingafulltrúi SFS hafði samband við ráðuneytið eins og títt er og þar var falast eftir því að ég sem ráðherra sjávarútvegsmála ávarpaði það sem kallað er og yfirskriftin er sjávarútvegsdagurinn 2022, sem var haldinn af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum atvinnulífsins og Deloitte. Við þessari beiðni var orðið. Í aðdraganda fundarins kom í ljós að ég gat ekki setið þessa ráðstefnu vegna fundar í ráðherranefnd þannig að það varð úr, eins og því miður gerist oftar en ekki, að ég ávarpa fundinn og opna hann og vík síðar á fundinum. Ég var því ekki viðstödd þá umræðu sem þarna var og ekki frekar en almennt var það lagt í mínar hendur að meta það hverjir töluðu þar og hverjir ekki, enda viðgengst það ekki þegar ég er beðin um að flytja opnunarávarp að það sé bundið einhverjum slíkum skilyrðum. Hins vegar vil ég segja vegna spurningarinnar sem hv. þingmaður ber hér upp að það er auðvitað staðreynd að um er að ræða alvarlegar ávirðingar og alvarleg mál sem eru í rannsókn á þessu sviði, mál sem geta skaðað og hafa skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs og fram hjá því verður auðvitað ekki litið, hvorki í þessu samhengi né öðru.