153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjávarútvegsdagur SFS.

[10:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér heyrist vera samhljómur á milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarna Jónssonar í hennar flokki sem sagði í sérstakri umræðu um rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands hér á Alþingi, tveimur dögum eftir þennan sjávarútvegsdag 27. október síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kusu að gera forstjóra Samherja að andliti samtakanna á dagskrá sinni á þriðjudaginn sem helguð var degi sjávarútvegsins.“

Hann sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„Það er óásættanlegt að orðspor heillar greinar sé undir vegna einstakra fyrirtækja sem byggja viðurværi og auðæfi sín á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.“

Ég vil bara spyrja aftur, eða kannski ítreka og gera spurninguna aðeins sértækari: Finnst hæstv. ráðherra það virkilega ásættanlegt að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hegði sér með þessum hætti og bjóði þessum manni að taka sviðið?