153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

stéttaskipting á Íslandi.

[10:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort hann tryði því raunverulega að barn öryrkjans hefði nákvæmlega sömu tækifæri og fæddist inn í sömu stétt og barn stórútgerðarmannsins. Hann vill ekki einu sinni reyna að jafna þennan aðstöðumun, ef ég skil svör hans rétt. Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra lendi í vandræðum með þessa fullyrðingu sína, þessa ótrúlegu fullyrðingu um að Ísland sé stéttlaust samfélag. Hún er fjarstæðukennd. Það er ekki furða að hann sé á harðahlaupum undan eigin orðum en hann verður bara að una því að talað sé um stéttaskiptingu á Alþingi Íslendinga.

Samkvæmt gögnum frá landlækni getur 30 ára karlmaður, sem er einvörðungu með grunnskólapróf, vænst þess að lifa fimm árum skemur en jafn gamall maður með háskólapróf. Þetta segja gögn landlæknis. Er þetta tilviljun eða er þetta einmitt áminning um að Ísland er víst stéttskipt samfélag?

Gögn frá OECD sýna að helmingur erlendra ríkisborgara á Íslandi er undir fátæktarmörkum en samt í launaðri vinnu. Við þurfum að fara til Bandaríkjanna eða Sviss til að finna sams konar hlutfall. Er þetta tilviljun eða kannski einmitt áminning um að Ísland er stéttskipt samfélag, að það er eilífðarverkefni að draga úr þessari stéttaskiptingu, að við eigum ekki að afneita henni og viðhalda henni eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir? Við eigum að draga úr henni og milda hana.