153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

stéttaskipting á Íslandi.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það mun ekki falla í hlut hv. þingmanns að leggja af slagorð Sjálfstæðismanna, stétt með stétt, sem var einmitt haldið hátt á lofti á vel heppnuðum landsfundi okkar um síðustu helgi, þeim fjölmennasta hingað til. Það er bara rangt hjá hv. þingmanni að við höfum aflagt það slagorð okkar. (Gripið fram í.) Staðreyndin er samt sú að allar tölur sýna okkur að við höfum náð meiri árangri í því að tryggja stéttlaust samfélag heldur en nokkurt annað þjóðríki. Ekki nóg með það heldur eru kjör þeirra sem minnst hafa á Íslandi einhver þau bestu sem fyrirfinnast innan OECD og innan Evrópu.

Mig langar að vekja athygli á annarri staðreynd sem kemur fram í lífshlaupinu á vefnum tekjusagan.is. Þar sjáum við félagslega hreyfanleikann í íslensku samfélagi — þetta er mál sem hefur fengið allt of litla athygli — sem sýnir okkur að fólk sem snemma á æviskeiðinu býr við tiltölulega kröpp kjör(Forseti hringir.) á meiri möguleika á Íslandi en í öðrum ríkjum til að blómstra seinna á æviskeiðinu. Þetta er það sem skattframtöl frá árinu 1991 sýna okkur. (Forseti hringir.) Félagslegur hreyfanleiki er auðvitað lykilatriði í samfélagi þar sem allir eiga jöfn tækifæri. (Gripið fram í.)