153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

álag á innviði vegna hælisleitenda.

[11:01]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Kannski má segja að þingmaðurinn sé að reyna að nálgast umræðuna svolítið öðruvísi og á málefnalegri hátt heldur en margt hefur verið í þeirri umræðu á síðustu vikum, misserum og jafnvel lengri tíma. Það er nefnilega alveg rétt að íslenskt samfélag gæti ekki þróast, þroskast og verið með slíkan vöxt eins og verið hefur án þess að hingað komi fólk til vinnu. Við erum enn þann dag í dag á ótrúlega öflugum stað, ekki síst í ljósi samanburðar við önnur lönd hvað atvinnuleysi varðar og þar af leiðandi þörf okkar á því að fá hingað vinnuafl til að standa undir íslensku samfélagi. Það er rétt að hér eru tugþúsundir í vinnu. Sumir koma hingað til að vinna til skamms tíma eins og er í öllum löndum, aðrir kjósa að setjast hér að og þeir þurfa auðvitað að fá þá þjónustu sem til þarf, íslenskukennslu, þeir eignast börn og þurfa pláss í leikskólum og alla þá innviði sem til þess þarf. Það er bara talsvert álag nú þegar, vegna þess að þetta er mjög stór hópur. Síðan hefur líka verið horft til þess að fá hingað sérfræðinga til að taka þátt í þeim hátækniiðnaði sem við erum að byggja upp og í skapandi greinum. Við höfum verið að tala um að það sé kannski skrýtið að við séum að horfa eingöngu á EES-svæðið en hafa ekki allan heiminn þar undir. Það er líka rétt hjá þingmanninum og ég held að við þurfum að gera það og takast þá á við það líka. Síðan er til kerfi þar sem eru annars vegar kvótaflóttamenn sem við höfum verið að standa okkur nokkuð vel í að taka á móti og reyna að gera eins vel fyrir og við mögulega getum. Það eru þeir sem standa hvað verst að mati Sameinuðu þjóðanna og við í samstarfi við þær. Síðan eru það hælisleitendur sem við ráðum við að ákveðnu marki líka, en þegar allt bætist ofan á þá viljum við líka gera vel við þann hóp. En það er neyðarkerfi og það er kannski ágætt að við förum að ræða það að það sé ekki sama leið og allar hinar. (Forseti hringir.) Ef það er þannig að þeir sem fara í hælisleitendakerfið væru í raun að koma til þess að sækja sér vinnu eins og þessar tugþúsundir þá kannski þyrftu þeir að fara aðra leið heldur en í gegnum hælisleitendakerfið.