153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins. Annars vegar nr. 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og hins vegar nr. 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu, sem heitir á ensku EU Taxonomy.

Með fyrrnefndu reglugerðinni eru lagðar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort og þá hvernig tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum með því meðal annars að beina aðilum á fjármálamarkaði að lausnum sem taka mið af þróun í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum.

Með áhættutengdri sjálfbærni er átt við atvik eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gætu haft veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestinga. Þær upplýsingar sem ber að birta eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga þær því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt er fjárfestum áður en samningur er gerður.

Samkvæmt reglugerðinni ber aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum að veita fjárfestum upplýsingar áður en samningur er gerður og með viðvarandi hætti með því að birta þær á vefsetrum sínum, í reglubundnum skýrslum og starfskjarastefnum.

Með reglugerð 2020/852 er komið á fót samræmdu evrópsku flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Flokkunarkerfinu er ætlað að auka gagnsæi með tengdri upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja og hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er svo þeim sé kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi.

Flokkunarkerfinu er jafnframt ætlað að sporna við svokölluðum „grænþvotti“, sem lýsir sér í því að tiltekin atvinnustarfsemi eða fjárfestingarafurð er markaðssett sem sjálfbær án þess að hægt sé að sýna fram á það eða umhverfisstaðlar hafa í reynd ekki verið uppfylltir, og með því öðlast ósanngjarnt samkeppnisforskot. Flokkunarkerfið skapar grundvöll fyrir samevrópska staðla og vottanir fyrir sjálfbærar fjármálaafurðir.

Tæknileg viðmið um hvaða atvinnustarfsemi telst færa verulegt framlag til umhverfismarkmiða reglugerðarinnar verða útfærð í framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem innleiddar verða í íslenskan rétt með reglugerð ráðherra.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um það hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, viðurlagaákvæði og heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin muni gilda um aðila á fjármálamarkaði, þ.e. vátryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lánastofnanir sem veita þjónustu á sviði eignastýringar, lífeyrissjóði, og rekstraraðila sjóða. Þá er gert ráð fyrir að stórum félögum og einingum tengdum almannahagsmunum, sem falla undir skyldu til að birta ófjárhagslegar upplýsingar samkvæmt ársreikningalögum, verði skylt að hafa með í skýrslum yfir ófjárhagsleg atriði upplýsingar um hvernig og að hvaða marki starfsemi fyrirtækisins tengist atvinnustarfsemi sem telst vera umhverfislega sjálfbær.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna og hafi til þess hefðbundnar eftirlitsheimildir.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er liður í því að uppfylla markmið áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2030 og efla viðbrögð við loftslagsbreytingum með því að auka fjármagnshvata fyrir fyrirtæki til að færa sig í átt að lítilli losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum. Frumvarpið kveður á um ríkar kröfur um upplýsingagjöf aðila á fjármálamarkaði, stærri fyrirtækja og félaga tengdum almannahagsmunum til neytenda um sjálfbærnimál og eykur samræmi þeirra upplýsinga og þeirra aðferða sem beitt er við mat á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Þess má vænta að þetta auki traust á þeim fjármálaafurðum sem markaðssettar eru sem sjálfbærar eða grænar og það sem skiptir kannski mestu, að við náum frekari árangri á öllu þessu sviði og við höfum væntingar um að það geti einnig dregið úr svonefndum grænþvotti.

Virðulegi forseti Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.