Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru framkvæmdaratriðin í bankasölunni sem eru gagnrýniverð, sagði hæstv. forsætisráðherra í apríl. Þetta er Bankasýslunni að kenna, ekki hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er sagan sem þingmenn Vinstri grænna segja þjóðinni þessa dagana. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, var við sama heygarðshornið í gær þegar hún gaf í skyn í viðtali á RÚV að aðfinnslur ríkisendurskoðanda beindust einvörðungu að Bankasýslunni. Þannig dró hún upp villandi mynd af niðurstöðum Ríkisendurskoðunar því að gagnrýni embættisins lýtur ekkert síður að vinnubrögðum fjármálaráðuneytisins heldur en vinnubrögðum Bankasýslunnar. Hverjir bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum? Það eru ráðherrar. Hver er það sem tekur ákvörðun um sölu á fjármálafyrirtæki, bæði í upphafi ferlisins og í lokin? Það er fjármálaráðherra. Hver er það sem á að ganga úr skugga um að meginreglum laga hafi verið fylgt áður en hann samþykkir tilboð? Það er fjármálaráðherra. Hver er það sem leggur greinargerð fyrir Alþingi um málið og ber ábyrgð á því að Alþingi fái réttar upplýsingar? Það er hæstv. fjármálaráðherra? Hver er það sem ber ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð eru til grundvallar í þessari greinargerð? Það er hæstv. fjármálaráðherra eins og kemur svo skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er fjármálaráðherra með heilt ráðuneyti á bak við sig til þess einmitt að tryggja að vandað sé til verka við sölu á ríkiseignum. Það mistókst herfilega í þessu tilviki eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir.

Nú veltur þetta ríkisstjórnarsamstarf, nú hangir forsætisráðherrastóll Katrínar Jakobsdóttur á því að stjórnarliðum takist að hvítþvo Bjarna Benediktsson, firra hann lagalegri og pólitískri ábyrgð á því sem miður fór við söluna á Íslandsbanka og hengja alla ábyrgðina á undirstofnun. Þetta er mjög dapurlegt hlutskipti fyrir flokk sem einu sinni boðaði siðbót í íslenskum stjórnmálum en fólkið í landinu sér í gegnum þennan spuna og veit betur.