Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Herra forseti. Nú er vika vitundarvakningar trans fólks og málefna er þeim tengjast. Vikan snýst um að fagna trans fólki, veita fræðslu, deila reynslu og berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Þann 20. nóvember næstkomandi lýkur vikunni svo á minningardegi trans fólks en þá er þess trans fólks minnst sem hefur verið myrt eða tekið eigið líf vegna ofbeldis og fordóma kynvitundar sinnar vegna.

Veruleikinn er sá að trans fólk er mun líklegra til að verða fyrir áreiti og ofbeldi sem leiðir af sér þunglyndi, sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvíg. Trans fólk er líklegra til að vera myrt einungis vegna þess að þau eru trans. Sum myndu segja að á Íslandi værum við svo heppin að vera komin mun lengra en ákveðin teikn eru þó á lofti um að hatur gagnvart trans fólki haldi áfram að vaða uppi og það ekki einungis undir niðri. Hatur getur nefnilega birst á ótal vegu, ekki aðeins í líkamlegu ofbeldi eða í beinu andlegu ofbeldi heldur einnig með því að grafa undan tilverurétti. Það er einmitt það sem á sér stað í dag beint fyrir framan nefið á okkur þingfólki.

Haturssamtök gegn trans fólki hafa í fyrsta sinn skilað inn umsögn til fastanefndar Alþingis. Þar er tilveruréttur trans fólks ekki einungis dreginn í efa heldur er sagt beinum orðum að trans fólk sé hreinlega ekki til og samfélagið búi til trans fólk með ólöglegum skurðaðgerðum og lyfjanotkun. Allt saman hið mesta bull. Samtök tengd þeim samtökum sem um ræðir eru á lista erlendis yfir opinber haturssamtök og deila þar sæti með nýnasistum og öðrum öfgasamtökum. Ég hvet allt þingfólk til að mótmæla þessu hatri og gagnrýna upplýsingaóreiðuna alla.

Forsætisráðherra, sem jafnframt er ráðherra jafnréttismála og þar með málefna hinsegin fólks, setti á stofn nefnd um hatur og hatursáróður. Sú nefnd mun skila af sér tillögum í næsta mánuði og ég vona að þær tillögur fari hratt í gegnum þingið svo að við eignumst góð lög til að vernda minnihlutahópa fyrir hatri og ofbeldi því að það getur bjargað lífi fólks.