Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þann 8. apríl síðastliðinn samþykkti ríkisendurskoðandi að verða við beiðni fjármála- og efnahagsráðherra um að embættið gerði stjórnsýsluúttekt á því hvort sala ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka 22. mars 2022 hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Það gerði hann á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laganna sem ber yfirskriftina „gjaldtaka“, en þar segir að ríkisendurskoðandi geti gert úttekt þegar sérstaklega stendur á og nauðsynlegt er að hann skoði eða geri úttekt á meðferð ríkisfjár í tilteknu máli eða á tilteknu sviði og er honum heimilt að taka gjald fyrir. Þannig hljóðar sú lagagrein.

Rúmum sjö mánuðum síðar barst hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skýrslan. Á fundi nefndarinnar síðdegis í gær gaf ríkisendurskoðandi leyfi til þess að vitnað væri til orða hans á fundinum með vísan í 19. gr. starfsreglna fastanefnda þegar um það var beðið. Á fundinum fór hann yfir ástæður þess að það tók u.þ.b. hálft ár að afla gagna, taka viðtöl, rýna allt efni sem barst, fá sérfróða ráðgjafa til starfa, leita viðbragða umsagnaraðila við skýrsludrögum, vinna úr þeim og ganga frá lokaútgáfu skýrslunnar.

Sú sem hér stendur er þess fullviss að Ríkisendurskoðun hafi unnið úttektina eins hratt og örugglega og kostur var. Fram kom á fundinum að í upphafi hafi ríkisendurskoðandi talið að öll gögn lægju fyrir og því myndi sá hluti vinnunnar ekki reynast jafn tafsamur og kom á daginn. Þá ákvað sérfróður ráðgjafi, sem ríkisendurskoðandi fékk til liðs við sig í upphafi ferlisins, að segja sig frá málinu af ástæðum sem ekki er tími til að fara út í hér. Það tók nokkurn tíma að finna annan óháðan ráðgjafa sem hafði tök á að sinna verkefninu með stuttum fyrirvara.

Eins og greint er frá í skýrslunni reyndist afdrifaríkt fyrir úttekt Ríkisendurskoðunar að gögn sem bárust frá Bankasýslunni í maí, en munu eiga uppruna sinn í Íslandsbanka, reyndust ekki rétt þegar nánar var að gáð. Það kom því miður ekki í ljós fyrr en 31. október síðastliðinn en sem kunnugt er var skýrslunni skilað tveim vikum síðar.

Forseti. Það er brýnt að hv. þingmenn og almenningur allur átti sig strax á því um hvað er fjallað í skýrslu Ríkisendurskoðunar og um hvað er ekki fjallað í skýrslunni. Þar segir í inngangi, með leyfi forseta:

„Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum.

Úttektinni er ætlað að varpa ljósi á undirbúning og framkvæmd sölu eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka og einna helst þá atburðarás sem átti sér stað á söludegi, 22. mars 2022. Hún tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti.

Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hluti ríkisins í bankanum á umræddum tímapunkti eða til þeirra aðila sem fengu kauptilboð sín samþykkt. Þá er ekki tekin afstaða til þess hvort rétt hafi verið að notast við aðrar söluaðferðir en tilboðsfyrirkomulag. Að lokum er ekki lagt mat á hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa eða söluaðila hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur, þar á meðal hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum. Það síðastnefnda sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.“

Forseti. Helstu athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar varða eftirfarandi atriði við kynningu og framkvæmd sölunnar:

Í skýrslunni kemur fram að standa hefði þurft betur að undirbúningi og kynningu og þá er átt við allt ferlið og líka kynningu til hv. þingnefnda, fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Ekki hafi verið dregin upp skýr mynd af tilhögun söluferlisins í þeim kynningum.

Ríkisendurskoðun telur einnig að Bankasýslan hafi ekki búið yfir nægri reynslu af sölu samkvæmt tilboðsfyrirkomulagi — en eins og menn muna fór fyrsti hluti sölunnar fram með öðru fyrirkomulagi, almennu útboði — og að Bankasýslan hafi verið um of háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Þá segir að eftirspurn hafi verið vanmetin þegar ákvörðun var tekin um lokaverð og skýr merki um að söluverð hafi fyrst og fremst ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta en ekkert í kynningargögnum hafi gefið það til kynna. Svo virðist sem markmið um hagkvæmni, þ.e. að fá sem hæst verð fyrir hlutina, hafi vikið fyrir markmiðum um dreift eignarhald, jafnvel þótt um tilboðsfyrirkomulag væri að ræða og ætlunin að fá fáa en stóra fjárfesta. Einnig virðist sem hugtakanotkun, þegar kemur að hæfum fjárfestum, hafi verið á reiki og um það má lesa á bls. 10 í skýrslunni. Bent er á að óvenjulegt sé að einkafjárfestum sé boðin þátttaka í sölu sem fer fram með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi.

Umfjöllun um tilboðabókina í skýrslu Ríkisendurskoðunar er svo kapítuli út af fyrir sig. Í þessari ræðu gefst ekki tími til að fara ofan í saumana á því máli en það er áhyggjuefni að ríkisendurskoðanda skuli ekki hafa borist rétt skjal, tiltekið excel-skjal, sem nokkuð hefur verið til umræðu síðustu klukkustundir og sólarhringa, fyrr en í umsagnarferlinu, eins og áður segir, alveg undir lok þess.

Í skýrslunni kemur fram að Bankasýslan virðist ekki hafa verið meðvituð um heildareftirspurn fjárfesta þegar lokaverð, og þar með afslátturinn sem fylgir þessu fyrirkomulagi, var ákveðið. Þar segir einnig að ákvörðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þ.e. ákvörðun sem tekin er að kvöldi 22. mars síðastliðinn, hafi byggst á ónákvæmum upplýsingum.

Athygli er enn og aftur vakin á því að skýrsla Ríkisendurskoðunar fjallar ekki um það hvort eða hvernig hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði getað eða hefði jafnvel átt að fullrannsaka þá ráðgjöf sem kölluð er rökstutt álit sem fékkst frá Bankasýslunni þá um kvöldið. Ljóst er að samkvæmt lögum nr. 155/2012 getur hæstv. ráðherra samþykkt eða hafnað, það liggur í hlutarins eðli, tillögu sem kemur frá Bankasýslunni um sölu. Á bls. 60 í skýrslunni má lesa ítarlega umfjöllun um rökstutt mat, eins og það er kallað, og hvernig það er framreitt við þessar aðstæður.

Í skýrslunni er víða fjallað um að söluferlið allt hafi verið undirorpið huglægu mati, t.d. við mat á tilboðum, og ekki legið fyrir skýr hlutlæg viðmið um ákvarðanatökuna og eðli málsins samkvæmt hefðu þau hlutlægu viðmið átt að vera niðurskrifuð og liggja fyrir þannig að allir vissu hver þau væru og hvaða áhrif það gæti haft þarna um kvöldið. Fleyg eru orðin þau orð að þessir gjörningar eigi meira skylt við list en vísindi. Ég ætla ekki að gera lítið úr því enda málum blandið hvor hafi verið mikilvægari fyrir mannkynssöguna Picasso eða Pýþagóras, eins og nefnt var á nefndarfundi í gær, en það segir sig sjálft að huglæga matið getur valdið misskilningi, tortryggni og kannski öðrum alvarlegri afleiðingum.

Niðurstaða ríkisendurskoðanda er að annmarkar söluferlisins séu fjölþættir, lúti að undirbúningi og framkvæmd ferlisins og ljóst megi vera að orðsporsáhætta hafi verið vanmetin.

Forseti. Ég sný mér þá í stuttu máli að því verkefni sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur með höndum, skv. 13. gr. þingskapalaga. Í þeirri grein stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram.“

Í sömu grein, 13. gr. þingskapa, segir einnig, með leyfi forseta:

„Nefndin skal jafnframt leggja mat á og gera tillögu til Alþingis um hvenær rétt er að skipa rannsóknarnefnd, sbr. lög um rannsóknarnefndir. Nefndin tekur skýrslur slíkrar nefndar til umfjöllunar og gefur þinginu álit sitt um þær og gerir tillögur um frekari aðgerðir þingsins.“

Ég vitna í 13. gr. þingskapalaga svo að öllum sé ljóst hver lagaleg umgjörð starfs stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er, hvaða ákvarðanir hún getur tekið lögum samkvæmt og innan hvaða ramma hún vinnur hér á hinu háa Alþingi. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn séu meðvitaðir um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur að stórum hluta annað hlutverk en hinar þingnefndirnar. Hún er reist á grunni þess fyrirkomulags sem Norðmenn og Stórþingið hafa sett í sín lög og þingmenn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áttu þess kost að kynna sér störf sambærilegrar nefndar í Stórþinginu nýverið. Ég ætla að fá að segja það hér við þetta tækifæri að sú ferð og þau samtöl sem þar áttu sér stað styrktu okkur mjög í því erindi sem okkur er falið lögum samkvæmt og um mikilvægi þess og mikilvægi eftirlitshlutverks þingsins með framkvæmdarvaldinu, en um það snýst þetta mál, um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu.

Þá hefur nefndin einnig, og ég vil líka geta þess hér við þetta tækifæri, skýrar heimildir til að óska sérálita sérfræðinga utan þings, skv. 60. gr. starfsreglna Alþingis. Það kann að vera að einhverjum sem hér hlýðir á þyki það óþarfi að lesa upp úr þingskapalögum og/eða starfsreglum þingnefnda en reynslan hefur kennt mér að oftar en ekki er ekki vísað til þeirra um þær heimildir sem við höfum ellegar að almenn þekking á þeim er minni en ætla mætti miðað við þau störf sem við gegnum sem kjörnir fulltrúar og alþingismenn. Mér finnst því mjög mikilvægt að þetta komi fram strax hér í upphafi þessarar umræðu og öllum sé ljóst, öllum hv. þingmönnum, hversu alvarlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur starf sitt og að hún mun rækja það í samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi nefndarinnar.

Forseti. Það er kannski óþarfi að taka það fram einnig en ég vil samt að það komi fram svo að allir heyri að nefndin mun fara vandlega yfir efni og ábendingar skýrslunnar, kalla til fundar við sig umsagnaraðila hennar, þ.e. þá aðila sem fengu skýrsluna til umsagnar. Þar er auðvitað fyrst að nefna Bankasýslu ríkisins, þá hæstv. ráðherra og fjármálaráðuneytið, Íslandsbanka og aðra þá sem fulltrúar í nefndinni telja þörf á að kalla til. Öllum steinum verður velt við, eins og kom fram í máli margra þingmanna í vor þegar alvarlegar athugasemdir komu fyrst fram við söluferli á hlut ríkisins í Íslandsbanka með títtnefndu tilboðsfyrirkomulagi.

Ég vil að það komi fram, hæstv. forseti, að ég tel að skýrsla ríkisendurskoðanda gefi skýra mynd af ákveðnum og afar mikilvægum þáttum þessa máls. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hún svari ekki öllum spurningum mínum um þetta ferli, og ég hef grun um að það eigi við um fleiri hv. þingmenn. Við munum að sjálfsögðu leita svara við þeim spurningum sem spurt hefur verið og spurt verður á vettvangi nefndarinnar. Því getur skýrslan ekki talist gefa heildarmynd af því sem fram fór og ég þarf ekki að fara aftur yfir það sem stendur í skýrslunni og í inngangi ríkisendurskoðanda um afmörkun skýrslunnar og hvernig hún sé rituð. En það er algerlega á hreinu að það eru aðrir þættir þessa máls undir, m.a. þáttur umsjónaraðila með söluferlinu, söluráðgjafanna, söluaðilanna, hvort þau vinnubrögð hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur, en eins og við vitum öll er sá þáttur málsins til rannsóknar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Ef mig misminnir ekki var sagt frá því í fréttum í gær að flýta ætti þeirri úttekt.

Forseti. Ég tel að hlutverk mitt við þessa umræðu sem formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hafi tilheyrendum ekki enn verið það fullljóst, sé að standa vörð um hlutverk nefndarinnar innan þess ramma sem við störfum undir hér á hinu háa Alþingi. Við tökum það mjög alvarlega. Þess vegna vísa ég bæði í þingskapalög og aðrar starfsreglur þingsins. Mér finnst sjálfri mjög mikilvægt að Alþingi standi undir nafni, ekki einungis sem löggjafi heldur einnig í því hlutverki að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er okkar hlutverk. Það er eitt mikilvægasta hlutverk sem hægt er að hafa í lýðræðisríki, að allar upplýsingar verði settar upp á borðið, að brugðið verði á þær kastljósi úr öllum áttum og úr þeim áttum sem stjórnmálaflokkarnir sem nú eiga sæti á þinginu vilja gera og að við upplýsum málið og fjöllum um það með þeim hætti sem okkur er sómi að.