Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að í bréfi fjármálaráðuneytisins er þess farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún kanni og leggi mat á hvort salan hafi samræmist lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Ríkisendurskoðun fjallar um þetta aðeins í sinni skýrslu og segir:

„Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga […]“

Samt er í lögum um ríkisendurskoðanda sérstaklega fjallað um hvert hlutverk hans sé, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðandi skal upplýsa Alþingi og stjórnvöld um málefni sem varða rekstur og fjárreiður ríkisins, leiða í ljós frávik frá lögum og reglum á því sviði og gera tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár.“

Það varðar náttúrlega ákveðna heimild í fjárlögum að selja Íslandsbanka. Þetta varðar algerlega hlutverk ríkisendurskoðanda, eins og segir hérna, leiða í ljós frávik frá lögum. Það kemur í ljós núna í fréttum að það sé ákveðinn munur á drögum að skýrslu ríkisendurskoðanda og lokaútgáfu ríkisendurskoðanda eftir að búið er að senda hana í ráðuneytið, það er búið að tempra orðalagið þó nokkuð mikið. Þess vegna geld ég aðeins varhug gagnvart því að framkvæmdarvaldið sé að draga trúnaðarmann Alþingis inn í einhvers konar, hvað á maður að segja — það eru erfiðleikar þarna á milli, ríkisendurskoðandi þarf að taka þetta upp frá framkvæmdarvaldinu sem er með rosalega stórt hlutverk hérna inni á Alþingi líka. Þar lendum við í þessum klassíska vanda að framkvæmdarvaldið er í raun og veru hérna inni í salnum með núverandi meirihlutafyrirkomulagi. (Forseti hringir.) Og auðvitað hefur það áhrif á störf ríkisendurskoðanda þegar ráðherra kemur með svona skilaboð. Það hlýtur að gera það. Þess vegna þurfum við þeim mun frekar að standa vörð um sjálfstæði Ríkisendurskoðunar.