Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram á fundi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær, þegar ríkisendurskoðandi var spurður um það hvort farið hefði verið að lögum við þessa framkvæmd og við söluna, að þá svaraði ríkisendurskoðandi: Ríkisendurskoðun dæmir ekki um það. Nú skulum við bara hafa það á hreinu að þetta voru svör ríkisendurskoðanda á fundi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra líði betur með það að vitna hér til lagagreinanna. Það sem ríkisendurskoðandi gerir stendur í upphafi að inngangi skýrslunnar, nákvæmlega um hvað þessi skýrsla fjallar og um hvað hún fjallar ekki. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra getur reynt að koma upp til að kasta ryki í augu þingmanna eða annarra sem hér hlýða á til þess að reyna að telja okkur trú um að þessi skýrsla fjalli um eitthvað annað en hún fjallar um. Það stendur algjörlega skýrt og svart á hvítu í inngangi skýrslunnar um hvað er fjallað í henni. Og aðspurður svaraði ríkisendurskoðandi algjörlega skýrt. Ég vil minna á það, hæstv. forseti, að það er hlutverk þingnefndarinnar að ganga úr skugga um það hvernig var staðið að þessu söluferli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)