Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að formaður nefndarinnar skuli leggja þetta ríka áherslu á að fá allt upp á borðið og skoða málið í hörgul. Það er akkúrat það sem ég tel að sé mikilvægt og hef lagt áherslu á frá upphafi. En mér finnst það orðið mjög alvarlegt, reyndar grafalvarlegt, ef hér er að hefjast umræða um skýrslu sem ríkisendurskoðandi féllst á að vinna, til að kanna það sérstaklega hvort fylgt hafi verið lögum og góðum stjórnsýsluháttum, að látið sé í það skína að því hafi bara verið sleppt. Eða hverja telur hv. þingmaður ástæðuna vera fyrir því að hvergi í skýrslunni er minnst á að farið hafi verið á svig við lög? Eða vekur það ekki athygli hv. þingmanns að ríkisendurskoðandi hafi jafnvel sleppt því að vekja athygli á stórvægilegum mistökum eða afbrotum stjórnvalds eins og honum ber lögum samkvæmt að gera? Ég ætla að halda því fram að þessi tilvísun í inngangi skýrslunnar, í þau atriði sem lúta eftirliti annarra en ríkisendurskoðanda, hafi bara ekkert með kjarna málsins að gera hér, bara ekki neitt. Þar er ríkisendurskoðandi bara að segja: Ég sker ekki úr um lagaágreining um sérhvert atriði sem hefur verið í umræðunni. Hann er ekki að segja að hann, ríkisendurskoðandi, ætli að skjóta sér undan verkefninu sjálfu, kjarna málsins, hvort lögum hafi verið fylgt við framkvæmd á sölu Íslandsbanka, að sjálfsögðu ekki. Og varla trúir hv. þingmaður því að ríkisendurskoðandi geti með stuttum fyrirvara í inngangi skýrslunnar bara almennt skotið sér undan lögbundnu hlutverki sínu að leggja mat á það hvort lögum hafi verið fylgt eða stjórnsýsluháttum. (Gripið fram í.) Erum við í alvörunni að hefja umræðu um þessa skýrslu á þeim forsendum að þessum grundvallaratriðum hafi bara verið sleppt? Það er alveg með ólíkindum. Það er með mestu ólíkindum. (Forseti hringir.) Það er bara ein ástæða fyrir því að þetta er niðurstaða stjórnarandstöðunnar hér í þinginu. Hún er sú að það hefur ekkert lögbrot fundist.