Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki seinna vænna að það komi fram við þessa umræðu að hlutverk Ríkisendurskoðunar er að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins og ríkisrekstri. Ríkisendurskoðun hefur ekki eftirlit með framkvæmdarvaldinu að því leyti sem hér er verið að ræða um. Hæstv. ráðherra getur reynt að telja fólki trú um að þannig sé það. En það er ekki þannig. Það er ekki þannig, hæstv. forseti. Mig langar til að vitna hér í skýrsluna á bls. 26, með leyfi forseta:

„Þótt ekki sé gert ráð fyrir aðkomu ráðherra að framkvæmd sölunnar ber hann engu að síður ábyrgð á því að söluferlið sé í samræmi við þær forsendur og þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í greinargerð hans. Honum ber því að hafa eftirlit með söluferlinu og ganga úr skugga um að það hafi verið í samræmi við greinargerðina áður en hann tekur ákvörðun um sölu.“

Þetta, hæstv. forseti, er í samræmi við lög nr. 155/2012. Ábyrgðin á söluferlinu er hjá ráðherranum. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra þyki það við hæfi að hanga hér í ákveðnum lagagreinum um Ríkisendurskoðun af því að það hentar núna. En það bara hentar ekki, hæstv. forseti, af því að við ætlum að komast til botns í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)