153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við séum nú loks komin með skýrslu ríkisendurskoðanda í hendur. Ég vil hefja þessa umræðu á því að segja að ég tel afar mikilvægt sem fram er komið nú þegar, bæði í almennri umræðu hér og við framsögu formanns nefndarinnar, að þingið gefi sér tíma til að fara yfir allar staðreyndir, þau gögn sem eru til staðar, og gaumgæfi þau atriði sem er að finna í skýrslunni. Það skiptir mjög miklu máli að við getum rætt um niðurstöðuna af yfirvegun.

Ég verð þó að lýsa áhyggjum af því að hér í upphafi skuli vera látið að því liggja að ríkisendurskoðandi hafi ekki unnið verkið sem hann féllst á að vinna, sem er að leggja mat á hvort salan hafi samrýmst lögum. Þegar við ræðum um að samrýmast lögum erum við að sjálfsögðu að tala um lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Við erum ekki að tala um allt lagasafnið. Við erum að tala um þau lög sem gilda um efnið. Að þessu leyti til er mikilvægt, þegar menn eru að vísa til þeirrar afmörkunar sem ríkisendurskoðandi hefur sett í inngang skýrslunnar, að hafa í huga að í opinberri umræðu um skýrsluna hefur Ríkisendurskoðun tekið fram að embættið hafi ekki orðið þess áskynja að lög hafi verið brotin þegar hlutur ríkisins í bankanum var seldur. En síðan er það látið fylgja að ekki sé þar með sagt að eitthvað hafi ekki mögulega farið úrskeiðis í ferlinu í heild sinni og eitthvað ólöglegt gerst, samanber tilvísun í það að Fjármálaeftirlitið sé með ákveðna þætti til skoðunar.

Við verðum a.m.k. að geta verið sammála um hvers konar gagn og athugun við erum með í höndunum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég fæ á tilfinninguna að það hafi orðið slík vonbrigði fyrir stjórnarandstöðuna hér á þingi að fá ekki staðfest lögbrot, stórfellt gáleysi eða að farið hafi verið á svig við lögin sem um efnið gilda. Hvergi segir það í skýrslunni, sem var þó unnin í hálft ár, að nú þurfi að finna einhverja nýja leið til að ræða um málið, að útvatna það — hér brosa menn í einhverjum hálfkæringi, verð ég að segja, í umræðu um þetta stóralvarlega mál — en með því er ekkert minna gefið í skyn en að ríkisendurskoðandi, sérstakur trúnaðarmaður Alþingis, hafi einfaldlega ekki unnið verkið. Mér finnst það mjög alvarlegt mál.

Ég ætla hins vegar að halda öðru fram. Ég ætla að halda því fram að ríkisendurskoðandi hafi einmitt skilað því sem um var rætt og bendi á nokkur atriði sem standa upp úr, m.a. að Ríkisendurskoðun telji að salan hafi almennt verið ríkissjóði hagfelld, sem er grundvallaratriði. Hvergi er minnst á að brotið hafi verið gegn lögum sem um efnið gilda eða góðum stjórnsýsluháttum, a.m.k. ekki hvað varðar þá þætti sem snúa að fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þótt margar ágætar ábendingar séu um það sem hefði mátt betur fara. Um þessi tvö grundvallaratriði vil ég segja að það er að sjálfsögðu aðalatriði máls að íslenskur almenningur hefur fengið 108 milljarða fyrir hluti í banka sem ríkið fékk á sínum tíma án endurgjalds. Hlutabréf í bankanum voru framseld til ríkisins án endurgjalds vegna þeirrar pólitísku stefnumörkunar sem áður hafði verið ákveðin og enn á ríkið 42,5% hlut. Ég finn að margir eiga erfitt með að sætta sig við þessa stóru mynd málsins. Þetta er nefnilega stóra samhengi hlutanna. Hér var fólk við völd fyrir nokkrum árum sem sá enga aðra leið út úr höftunum en að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og hefði aldrei tekið bankann yfir, hvað þá selt hann — aldrei nokkurn tímann. En nú erum við komin á þann stað að við höfum losað um yfir 100 milljarða, sett í innviði og við getum haldið því áfram ef vilji er til þess. Það hef ég ávallt talið mikilvægt að verði framhald málsins.

Ég hef aðeins í dag vísað í lögin sem um Ríkisendurskoðun gilda. Fyrir mitt leyti er alveg augljóst — þó ekki væri nema vegna þeirrar lagaskyldu sem hvílir á embættinu, að vekja athygli þings á því þegar menn hafa farið stórkostlega á svig við lög eða rofið stjórnsýsluvenjur eða hefðir — að það væri með miklum ólíkindum ef menn hefðu látið undir höfuð leggjast að vekja athygli þingsins á slíku. Ég trúi því bara ekki fyrr en ég tek á að menn séu í alvöru að halda fram að því hafi bara verið sleppt. Það eru atriði í þessu máli sem við höfum þegar sagt að hefðu mátt fara betur. Ég hef nefnt í því samhengi atriði sem eru tekin upp í skýrslunni, t.d. um kynningu á fyrirkomulagi sölunnar og þessu ferli. Það hefði mátt efna til meiri opinberrar umræðu um þau atriði. Þó er það nú þannig að í greinargerð minni, sem ég lagði fyrir þingið, eru atriði eins og það að þess megi vænta að afsláttur verði frá síðasta söluverði. Þetta er alveg skýrt og er rakið skýrum stöfum. Svo er annað í þessu að frávik frá síðasta sölugengi á markaði, í þessari sölu fyrr á árinu, var mun minna en tíðkast hefur. Síðast er hægt að vísa til fordæmis frá Írlandi í því efni, þar sem var margföld áskrift á endanlegu sölugengi samkvæmt fréttum. Fyrir suma sem hafa tjáð sig um verðið í þessu útboði ætti það að gefa tilefni til þeirrar ályktunar að Írarnir hefðu mögulega getað fengið hærra verð, það var margföld áskrift á útboðsgenginu.

En menn eru að sækjast eftir fleiri markmiðum en því einu. Ég ætla aðeins að fara yfir þau atriði sem skipta máli önnur en akkúrat bara hæsta verð. Þessi atriði voru reifuð í greinargerð minni til þingsins, m.a. að efla virka samkeppni, hámarka endurheimtur ríkissjóðs og stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma. Það er þessi greinargerð sem ég lagði fyrir þingið sem er grundvallargagn sölunnar samkvæmt lögum, ekki glærukynningar Bankasýslunnar — ekki er gert ráð fyrir þeim í lögunum — eða annað sem sagt er. Þetta er grundvallargagnið. Þarna er rakið hvaða atriði það eru sem menn eru að sækjast eftir með sölunni. Eins og þeim má vera ljóst sem kynna sér greinargerðina var verið að sækjast eftir fleiri atriðum en akkúrat bara hæsta verðinu. Þetta þarf því að skoða allt í samhengi.

Reyndar fannst mér fyrir söluna að allir væru sammála um þetta. Þetta kom t.d. fram í umsögn 2. minni hluta fjárlaganefndar þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ef tekin verður ákvörðun um að selja hlut ríkisins í bankanum er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á að fá fjölbreyttari fjárfesta að borðinu og fleiri alþjóðlega fjárfesta og tilboðsfyrirkomulag getur verið betur til þess fallið að laða að langtímafjárfesta með reynslu.“

Undir þetta gat ég tekið. Við sjáum í dag að erlendir fjárfestar eru fimmti og áttundi stærsti hluthafi bankans en að öðru leyti er þar fyrst og fremst að finna lífeyrissjóði, og ríkissjóður er enn langstærstur. Eðli málsins samkvæmt þá hugnast manni ekki ábendingar um að það hafi t.d. verið villur eða erfitt að lesa úr gögnum sem byggðu upp tilboðsbók söluráðgjafa Bankasýslunnar. Það er mikill ábyrgðarhluti að fara með tugmilljarða ríkiseigur og mjög mikilvægt að þeim sem treyst er fyrir slíku verkefni standi undir traustinu. Á móti kemur að það er erfitt að sjá nákvæmlega að vísbendingar séu um að þetta atriði hafi haft afgerandi áhrif á söluverð bankans. Bankasýslan hefur einmitt verið að tjá sig um þetta. Ráðgjafar Bankasýslunnar ættu mögulega að svara nánar fyrir um það. Það sama vil ég segja varðandi söluráðgjafa sem eru til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Fullum fetum mun ég ávallt segja: Ef í ljós koma brot af einhverju tagi í þeirri úttekt, eða almennt í úttektum eftirlitsaðila, þá er ekkert annað eðlilegt en að það hafi viðeigandi afleiðingar fyrir viðkomandi. En eðli málsins samkvæmt getur sá sem setur söluferlið af stað ekki tekið á sig ábyrgð á sérhverju slíku broti sem kann að vera til staðar í ferlinu, ekki frekar en samgönguráðherra væri gerður ábyrgur fyrir því að einhver færi yfir á rauðu ljósi. Drjúgur hluti ábendinga, reyndar bróðurpartur þeirra ábendinga sem fram komu í skýrslunni, snúa ekki að ráðuneytinu heldur framkvæmd sölunnar. Hún er lögum samkvæmt falin öðrum. Allt var það gert í upphafi til að koma í veg fyrir pólitísk afskipti af sölu ríkiseigna og koma sölunni í armslengd frá stjórnkerfinu. Þetta var ákveðið fyrir tíu árum síðan. Það hefur afleiðingar á ábyrgðarskiptin þegar menn ákveða að gera slíkt, annað væri ekki eðlilegt. Vald og ábyrgð eiga að fara saman í þessu eins og annars staðar.

Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að það væri góð tillaga, í framhaldi af því sem við erum að ræða hér, að færa ákvarðanir um alla framkvæmdina inn í ráðuneytin. Ég er ekki að segja það. En við þurfum að hafa línurnar á hreinu, hvernig ábyrgðarskiptin eru lögum samkvæmt og hvers vegna lögin eru eins og þau voru smíðuð. Til framtíðar sé ég hins vegar fyrir mér að við smíðum nýtt fyrirkomulag. Við, forystumenn ríkisstjórnarinnar, höfum tjáð okkur um þetta nú þegar. Í ráðuneytinu höfum við verið með undirbúning að frumvarpi sem fæli í sér talsverða breytingu á umsýslu eignarhalds ríkisfyrirtækja þar sem við hefðum þá ekki lengur þennan skilnað á milli fjármálafyrirtækja og annarra ríkisfyrirtækja, heldur hefðum það allt á sömu hendi og myndum í ríkari mæli taka tillit til leiðbeininga, m.a. alþjóðaaðila eins og OECD, um uppbyggingu að stjórnskipan fyrirtækjanna, t.d. um það hvernig við veljum í stjórnir.

Ég vonast auðvitað til þess þegar við förum inn í þá vinnu sem er fram undan, og ég geri engar athugasemdir við að hún kunni að taka einhvern tíma, að við getum átt uppbyggilegt samtal um allt þetta á sama tíma og við gerum upp skýrsluna. Við þurfum að komast út úr því ástandi að hjá sumum virðist vera sjálfstætt markmið að þyrla upp miklu moldviðri og rugla umræðuna. Það er lítill ávinningur í því fyrir almenning í landinu. Við þurfum að snúa okkur að því að varða leiðina til framtíðar, draga lærdóm af því sem betur mátti fara og halda síðan áfram að byggja upp landið okkar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið allt í margvíslegu samhengi, m.a. er í mínum huga augljóst að við eigum áfram að draga úr áhættu ríkisins í bankarekstri, halda áfram að stuðla að heilbrigðara samkeppnisumhverfi. Við erum bara búin með tvo áfanga — ríkið er enn langstærsti hluthafinn í Íslandsbanka. Þannig munum við smám saman geta færst nær því sem við sjáum í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum og haldið áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð, að breyta fjármálaeignum í mikilvæga innviði fyrir framtíð landsins.