Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá m.a. fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar er óvenjulegt að einkafjárfestum sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar skv. 54. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga sé boðin þátttaka í sölu með tilboðsfyrirkomulagi. Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Bankasýslan voru hins vegar sammála um að gera ráð fyrir þátttöku einkafjárfesta sem uppfylltu skilyrði sem hæfir fjárfestar í söluferlinu.“

Til skýringar þá þýðir þetta að ákveðið var að hleypa aðilum að útboðinu sem höfðu óskað eftir að vera flokkaðir sem fagfjárfestar, einkaaðilum og lögaðilum. Þessi ákvörðun ráðuneytisins og Bankasýslunnar hleypti því smáum fjárfestum að borðinu.

Í ljósi þess að hér er um að ræða viðsnúning frá upprunalegum áformum Bankasýslunnar um að hleypa einungis einstaklingum að borðinu sem hefðu fjárhagslegt bolmagn á við t.d. lífeyrissjóði eða vátryggingafélög vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær urðu fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýslan sammála um þessa breytingu? Hver var aðkoma ráðherra að þessari ákvörðun?