Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að það hafi nokkurn tíma staðið til að veita einungis einkafjárfestum sem hefðu bolmagn á við lífeyrissjóði, eins og hv. þingmaður orðaði það, að fjárfesta í útboðinu. Hverjum dettur í hug að halda því fram að það hafi einhvern tímann staðið til? Það sem rætt var um var hæfir fjárfestar. Og þingið, þegar almenna útboðið fór fram, hafði mikla skoðun á því hvernig ætti að meðhöndla ólíka fjárfest hópa. Það var þess vegna við því að búast þegar hæfir fjárfestar komu til umræðu í þinginu í tveimur þingnefndum, á mörgum fundum, með framlengdan umsagnarfrest, að það myndi koma sínum sjónarmiðum á framfæri um hvort það ætti að setja frekari skilyrði, að viðkomandi sem hefði áhuga á því að taka þátt í útboðinu þyrfti að uppfylla einhver frekari skilyrði en þau að teljast hæfir fjárfestar að lögum. Það hafði jú gerst áður að þingið hafði haft miklar skoðanir á því hverjum ætti að hleypa að útboði og á hvaða forsendum. En slíkt kom bara aldrei fram. (Forseti hringir.) Það er út af fyrir sig rétt að ráðuneytið gerði heldur ekki athugasemd við það og þannig ber að lesa þessi tilvitnuðu orð sem vísað er til. (Forseti hringir.) Ráðuneytið var ekki með aðrar hugmyndir um mögulega þátttakendur en þær sem höfðu verið kynntar opinberlega.