Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú bara að vísa í minnisblað frá Bankasýslunni til þingsins frá því í janúar þar sem forsendur útboðsins voru að laða að stóra fjárfesta sem hefðu bolmagn og áhuga. Var vísað í t.d. lífeyrissjóði og vátryggingafélög í þessu samhengi og að einstaklingar, einstakir fjárfestar, kæmu líka til skoðunar undir sömu skilyrðum, þ.e. ef þeir hefðu bolmagn til að taka þátt í þessu. Auðvitað kemur það okkur á óvart að svo séu allt í einu einhverjar aðrar forsendur. Og auðvitað er það áhugavert sem kemur fram í skýrslunni að Bankasýslan og ráðuneytið hafi fengið um það ábendingu frá fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar, erlendum fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar, sem eru sérfræðingarnir sem Ríkisendurskoðun er búin að segja að Bankasýslan hafi reitt sig allt of mikið á við þetta ferli allt saman, að það sé óvenjulegt og ekki venjan að hleypa einkafjárfestum að borðinu á þann hátt sem til stóð. En ráðherra tekur ákvörðun, ráðuneytið tekur ákvörðun, bankasýslan tekur ákvörðun um að gera það samt. Þess vegna spurði ég ráðherra: (Forseti hringir.) Hvenær urðu þeir sammála um að gera þetta samt og hver var aðkoma ráðherra að þeirri ákvörðun?