Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að sjálfsögðu eins og aðrir þingmenn að gera grein almennilega fyrir því hvað er í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar í ræðu hér á eftir. En mig langar hins vegar að nota tækifærið núna og spyrja hæstv. fjármálaráðherra um framtíðina. Honum finnst nefnilega mikilvægt að líta til framtíðar samkvæmt ræðunni hér áðan. Nú er þessi sala auðvitað ekki í neinu tómarúmi. Það er ákveðin saga sem við þekkjum, fyrri einkavæðingarferli sem lita auðvitað andrúmsloftið sem selt er í núna. Við höfum gert okkur vonir um það að selja eigi meira í Íslandsbanka von bráðar. Þeir eru einnig til hér á þingi sem vilja að Landsbankinn verði seldur líka.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra, einmitt af því að við þurfum að hafa forsöguna í huga þegar við metum traustið til þeirrar sölu sem fram undan er: Hvernig í ósköpunum kemst ráðherra að þeirri niðurstöðu að það verði mögulegt að selja meira í Íslandsbanka núna í náinni framtíð þegar allt traust er farið og það er algjörlega yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að gera nákvæmlega ekki neitt til að byggja upp traustið á nýjan leik, til að mynda með því að stofna rannsóknarnefnd Alþingis, sem er eins og dæmin sanna aðili sem er fær til þess að byggja upp traust?