Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að segja það alveg eins og er að mér finnst það dálítið hjákátlegt þegar þeir sem ala á vantraustinu koma síðan í ræður hér á Alþingi og segja: Hvernig eigum við að endurheimta traustið? Þeir sem koma með útúrsnúninga og rangtúlkanir á því sem við erum nú með í höndunum, jafnvel fólk sem heldur því fram að vinnan hafi einu ekki sinni verið unnin, það hafi ekki verið lagt mat á það hvort lögum hafi verið fylgt við framkvæmd sölunnar. Þetta sama fólk telur sig þess umkomið að koma hingað upp í ræðustól og spyrja stórra spurninga á borð við þær sem hér er velt upp: Hvernig getum við endurheimt traustið? Ég held að við getum endurheimt traustið með því að hefja málefnalega umræðu um raunverulegt innihald þessarar skýrslu, vera ekki með útúrsnúninga og stæla og hefja Alþingi aðeins upp úr þeim forarpytti sem margir vilja sífellt draga það niður í. Það held ég að myndi hjálpa.