Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:40]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að mótmæla þeirri mynd sem hæstv. ráðherra er að reyna að draga hér upp um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé ósátt við skýrslu ríkisendurskoðanda. Það er bara alls ekki rétt. Ríkisendurskoðandi skilaði svo sannarlega því sem um var rætt en honum er skorinn þrengri stakkur en svo að það svari öllum þeim spurningum sem við þurfum að fá svar við. Það er nákvæmlega þess vegna sem stjórnarandstaðan hefur kallað eftir rannsóknarskýrslu Alþingis því að við vissum fyrir fram að þetta yrði ekki nóg.

Í ljósi alls þess sem gengið hefur á, í ljósi upphaflegs útboðs hlutabréfa Íslandsbanka, þar sem bréfin voru seld á of lágu verði, og í ljósi þeirra alvarlegu misbresta sem fram koma í skýrslu ríkisendurskoðanda telur ráðherra að hann hafi axlað sína ábyrgð? Mátti ráðherra ekki vera ljóst, af samskiptum sínum við Bankasýsluna, að stofnunin hefði ekki næga sérþekkingu til að selja hlutina með tilboðsfyrirkomulagi? Og er ekki raunin sú að ráðherra hefur brugðist almenningi með þeim afleiðingum að ríkiseignir hafa verið seldar á undirverði?