Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Byrjum bara á þessu um undirverðið, hún er alveg með ólíkindum þessi umræða. Við erum að selja hérna uppsafnað u.þ.b. ársveltu í bankanum og við gerum það með minni afslætti en sambærileg útboð hafa tryggt öðrum ríkissjóðum undanfarin ár, reyndar mörg ár aftur í tímann. Þeir snillingar sem halda því fram að þeir hefðu bara getað fengið markaðsverði þennan dag eru auðvitað ekki með neitt í höndunum um það, bara nákvæmlega ekki neitt. Og auðvitað er það þannig, þegar verið er að byggja upp tilboðsbók, að sumir sækjast eftir meiru en þeir raunverulega hafa væntingar um að fá í hendurnar þegar úthlutunin á sér stað. Þetta er grundvallaratriði. Fram að útboðinu hafði hlutur ríkisins hækkað um u.þ.b. 50 milljarða. Við höfum fengið yfir 100 milljarða, við eigum enn yfir 100 milljarða inni. Satt best að segja tek ég bara ekki mark á því fólki sem heldur því fram að hér hafi verið farið illa með fjárhagslega hagsmuni ríkisins. Það er svo fjarri sanni. Og verst þykir mér þegar það kemur frá fólki (Forseti hringir.) sem hefur engan áhuga á því yfir höfuð að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum.