Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein ástæða þess að fá erlent eignarhald á bönkunum er sú að þegar við skoðum umhverfi stofnanafjárfesta á Íslandi þá erum við með mjög einsleitt landslag. Við erum fyrst og fremst með lífeyrissjóðina. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert sérstaklega heppilegt til lengri tíma að lífeyrissjóðir á Íslandi eigi bæði fjármálakerfið og meiri hlutann í Kauphöllinni og önnur fyrirtæki. Ég held að það sé bara ekki gott. Við þurfum á fjölbreyttara og dreifðara eignarhaldi að halda en það. Lífeyrissjóðirnir eru gríðarlega mikilvægir stofnanafjárfestar á Íslandi en við þurfum að laða til landsins stóra erlenda fjárfesta og þeir eru alls ekki allir farnir úr hluthafahópnum. Eins og ég hef verið að rekja hér í dag eru t.d. tveir á lista yfir stærstu tíu hluthafana enn hluthafar. Það er ástæðan fyrir því að það er skynsamlegt af okkur að sækjast eftir erlendu eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum og það var skynsamlegt (Forseti hringir.) hjá Bankasýslunni að ráða sérstaklega tvo erlenda ráðgjafa til að örva áhuga erlendra aðila á útboðinu.