Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðherra segir, það er ómögulegt að ætla alltaf að hitta á sölu á hámarksverði hlutabréfa, ómögulegt að sjá það fyrir. En það að selja þetta stóran hlut í bankanum á Covid-tímum og halda svo áfram rétt um það leyti sem stríð er að hefjast í Evrópu gaf a.m.k. tilefni til að velta tímasetningunni fyrir sér. Einnig hefði mátt velta fyrir sér þessu viðmiðunarverði upp á 79 kr. á sínum tíma. Það kom bara í ljós strax daginn eftir hversu lágt það verð hefði verið, og hefur hækkað jafnt og þétt síðan.

En er hæstv. ráðherra til í að velta fyrir sér núna þeim möguleika, sem þingmenn Miðflokksins hafa nefnt, bæði fyrir síðustu kosningar og þær þarsíðustu, að afhenda einfaldlega almenningi beint hlut í bankanum? Í tillögunum var miðað við að byrja á þriðjungshlut sem færi þá bara jafnt á alla Íslendinga, eigendur bankans, og þar væri þá a.m.k. sanngjörn leið og til yrði eðlilegt verð.