Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins varðandi fyrsta útboðið, þá vex virði bankans einfaldlega við það að hann er skráður. Það eykur verðmæti hans. Hann er betri fjárfestingarkostur. Við ákváðum að fara þessa leið og héldum eftir miklum meiri hluta í bankanum þannig að það hagnaðist enginn meira en einmitt ríkissjóður á því að bréfin skyldu hækka eftir skráninguna. Ríkissjóður græddi mest allra á því, ég held þessu til haga.

Já, ég er enn þeirrar skoðunar að við ættum að dreifa hlutabréfum í Íslandsbanka á íslenskan almenning. Þar er stærsta spurningin sú hversu stórt hlutfall af eftirstandandi eign ríkisins kæmi til greina að nota í þeim tilgangi. Ég held að það gæti verið mjög góð leið til þess að stækka hluthafahópinn enn frekar, virkja íslenskan almenning til þátttöku á hlutabréfamarkaðnum og vonandi skapa enn betri sátt um þessa mikilvægu ríkiseign og frekari meðhöndlun hennar.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við gætum selt hluta af eftirstandandi hlut í almennu útboði þar sem allir ættu jafnan rétt með svipuðu fyrirkomulagi og við gerðum í fyrstu umferð.