Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst bara örstutt athugasemd varðandi það að ekki hafi komið fram nema neðanmáls að vænta hafi mátt einhvers afsláttar, eins og það er orðað, frá síðasta sölugengi. Það er alveg skýrt á bls. 28 í greinargerð ráðherra að gera megi ráð fyrir því að eitthvert frávik verði frá síðasta sölugengi. Þetta var bara svona almenn athugasemd varðandi staðreyndir. Af því að hv. þingmaður tekur hér drjúgan tíma í að fara yfir það mat sitt að hæsta mögulega verð hafi ekki verið tryggt hlýt ég að gera athugasemdir við það og hef gert það hér í máli mínu í dag. En þetta vekur upp spurningar um það hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að fjárhagslegra hagsmuna ríkisins verði gætt ef farin verður sú leið sem hv. þingmaður hefur mælt með, sem er að breyta bankanum í samfélagsbanka og falla frá arðsemiskröfunni. Hversu mörgum tugum milljarða af eignum ríkisins þykir hv. þingmanni hæfilegt að við verjum í markmiðið um samfélagsbanka?