Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:11]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Hún var mjög efnismikil. Mér fannst hún heldur fullyrðingaglöð, ef ég á að segja eins og er. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á en hef kannski tíma fyrir örfá. Mig langar að byrja á að taka undir með henni um að partar af þessari skýrslu voru ekki góð lesning og það er algerlega augljóst að framkvæmdin var ekki eins og best var á kosið. Það er mjög mikilvægt að þau atriði verði áfram í rannsókn hjá til þess bærum aðilum eins og er í dag. Ég vil kannski bara nefna, ég veit að það var orðaglens, en fagfjárfestarnir og þeir söluráðgjafar og söluaðilar sem sáu um þennan þátt málsins eru ekki sömu aðilar og mikilvægt að halda því til haga að sá angi málsins er mjög alvarlegur. Við vitum auðvitað ekkert hvað kemur út úr honum en hann verður að fara í mjög mikla skoðun hjá til þess bærum aðilum. Þá langar mig að staldra við annað atriði sem hv. þingmaður nefndi, talandi um aðra aðila sem heyra undir önnur lög en t.d. það sem er skoðað í þessari skýrslu ríkisendurskoðanda — hann tekur skýrt fram að einmitt þessi atriði voru ekki til skoðunar hjá honum. Og varðandi það sem hv. þingmaður vitnaði í hjá ríkisendurskoðanda þá sátum við nú báðar fund hans í gær þar sem hann tók mjög skýrlega fram að hann hefði ekki orðið áskynja um lögbrot ráðherra og hann rengdi ekki að ráðherra hefði ekki gert neitt sem væri ekki samkvæmt lögum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Þetta tók hann skýrt fram í gær og hefur ítrekað í fjölmiðlum í dag. Því verð ég að segja að mér þykir leiðinlegt ef við ætlum að byrja þessa mjög mikilvægu umræðu, sem skiptir máli að við höldum vel utan um til þess að ná einhverri farsælli niðurstöðu til framtíðar hér, með því að leyfa okkur að skauta á svona mikilvægum staðreyndum svona strax í byrjun. (Forseti hringir.) Mig langar því að byrja á að spyrja hvort hv. þingmaður taki ekki undir með mér þar.