Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:17]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvort ráðherra hafi framið lögbrot þá get ég svo sem ekkert fullyrt um það. Ég fullyrti á einum stað að það hafi ekki verið staðið rétt að málum, já. En hitt er svo annað mál að ég held að margt hafi brugðist í hans eftirlitsskyldu svo ekki sé meira sagt. Hv. þingmaður sagði að ég hefði gert lítið úr erlendum aðilum. Já, ég gerði það vegna þess að ég tel þessi markmið í rauninni ekkert hafa náðst þegar við vitum ekki hvaða erlendu aðilar eru að kaupa. Þetta eru bara einhverjir sjóðir, við vitum ekkert hverjir standa á bak við þá eða neitt þess háttar. Við verðum að vita hverjum við erum að selja. Það bara verður að vera, við verðum að vita það, þannig að ég get ekki séð að þessi markmið hafi náðst. Hvað varðar fjölbreytt eignarhald þá minnir mig að hluthafar í Íslandsbanka, það getur verið að ég fari rangt með, séu í kringum 45.000 eða eitthvað þess háttar, þannig að eignarhald á Íslandsbanka er rosalega fjölbreytt. Þarna komu 207 hluthafar, ef ég man rétt, það voru í kringum 207 sem keyptu og það er bara eins og dropi í hafið ef það á að tryggja fjölbreytt eignarhald ef út í það er farið. Það er víst ekki fjölbreyttara eignarhald á neinu fyrirtæki á Íslandi heldur en Íslandsbanka. Þannig að ég get ekki séð að þessi markmið hafi náðst. Mér finnst alveg með ólíkindum að við skulum hafa fórnað þarna kannski 2 milljörðum eða svo sem hefði aldeilis verið hægt að nýta fyrir t.d. þá sem minna mega sín.