Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Má fjármálaráðherra Íslands selja pabba sínum hlut í ríkiseign á betri kjörum en almennt bjóðast? Hverjar voru skyldur fjármálaráðherra gagnvart sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka og framkvæmd hennar? Hverjar voru eftirlitsskyldur ráðherrans? Hvernig var rannsóknarskyldu ráðherrans háttað? Hvernig sinnti hann þessum skyldum sínum? Gætti ráðherrann að hæfi sínu við söluna? Skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka svarar ekki þessum spurningum. Af þessum sökum og mörgum öðrum sem ég mun fara nánar yfir hér á eftir er enn þá full ástæða til þess að setja á fót rannsóknarnefnd Alþingis eins og ég lagði til 7. apríl sl.

Að því sögðu dregur stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda upp grátbroslega mynd af vanhæfni og fúski, vanþekkingu og stórfelldu gáleysi þeirra sem báru ábyrgð á söluferlinu. Fulltrúar Bankasýslu Íslands sem áður gengu hér um sali og ganga Alþingis, vígreifir og hreyknir af afrekum sínum og yfirburðaþekkingu fela sig nú á bak við luktar dyr. Þessir menn sem sögðu engan skilja neitt, skildu reyndar sjálfir ekki neitt í því sem þeir voru að gera og ráðherrann þar með ekki heldur, því hvað vissi ráðherrann umfram óupplýsta Bankasýsluna? Ekki neitt. Forsætisráðherra hendir síðan manninum sem felur sig bak við luktar dyr fyrir rútuna og reynir enn og aftur að sannfæra þjóðina um að ósk stjórnarandstöðunnar, sem samkvæmt könnunum nýtur um 80% fylgis landsmanna, um að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis feli í sér einhvers konar vantraustsyfirlýsingu á ríkisendurskoðanda. Á sama tíma neitar hún að horfast í augu við að auðvitað beinist vantraustið að fjármálaráðherra sem ákvað sjálfur að óska eftir rannsókn á sjálfum sér hjá embætti sem beinlínis lýsir því yfir í skýrslunni að það falli utan síns hlutverks að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun. Enginn ráðherra í þessari ríkisstjórn, sem þykist kenna sig við traust og stöðugleika, er til í að horfast í augu við blákaldar staðreyndirnar. Auðvitað er stórkostlega skrýtið að Bjarni Benediktsson sitji sem fastast í sínu ráðuneyti og noti það vald sem embættinu fylgir til að lýsa yfir sakleysi sínu og heimta að fólk hætti að jarma í einhverri jaðarumræðu um 2 milljarða til eða frá. Hvað eru 2 milljarðar á milli vina eða feðga ef því er að skipta? Auðvitað er það bara einhver geðveiki að sjá veisluna sem borin var á borð fyrir u.þ.b. 200 útvalda fjárfesta. Sömuleiðis þá skiptir öll gagnrýni á störf fjármálaráðherra hvort eð er engu máli vegna þess að „þetta fólk“, með leyfi forseta, eins og fjármálaráðherra vísaði til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Kastljósi gærdagsins, hafi hvort eð er ekkert vilja selja bankann og þess vegna sé ekkert mark á þessu fólki takandi. Það er kannski ekkert skrýtið að hann hafi ekki þorað að mæta hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur með þessa hundalógík sína í gær.

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra sagði í viðtali við Vísi í gær að ákall stjórnarandstöðunnar um að nú verði skipuð rannsóknarnefnd Alþingis kæmi honum nákvæmlega ekkert á óvart. Hann hefði getað skrifað þessa frétt fyrir blaðamanninn sjálfur sem spurði hann um afstöðu sína. Ráðherrann lýsti í framhaldinu yfir, með leyfi forseta:

„… staðreyndin er sú að það eru ekki neinar vísbendingar um alvarleg brot, lögbrot, í þessari skýrslu. Svo sannarlega ekki hjá fjármálaráðuneytinu. Síðan eru að öðru leyti bara margvíslegar ábendingar um það sem betur hefði mátt fara. Svona rannsóknarnefndir hefur Alþingi sem úrræði þegar menn sjá fyrir sér að það sé rökstuddur grunur um að menn hafi farið á svig við lög og það hafi orðið af því mikið tjón fyrir einhvern eða einhverja stærri almannahagsmuni. Ég bara sé ekki slík mál í þessu tilviki sem kalli á slíka rannsókn.“

Forseti. Stöldrum aðeins við og greinum þessi svör ráðherrans. Hann segir engar vísbendingar vera um alvarleg brot eða lögbrot í þessari skýrslu, sér í lagi ekki brot framin af honum sjálfum. Skoðum aðeins nánar hvert efnisinntak þessarar skýrslu er í raun og veru. Í inngangi skýrslunnar segir, með leyfi forseta, að með henni sé leitast við að svara hvernig framkvæmd sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 samræmdist ákvæðum laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og laga um Bankasýslu ríkisins. En á sömu blaðsíðu stendur, með leyfi forseta:

„Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum.“

Þarna sést svart á hvítu að ríkisendurskoðandi lýsir því sjálfur yfir að hann telji það ekki hlutverk sitt að taka afstöðu til þess hvort lög hafi verið brotin eða ekki, leiki einhver vafi á um túlkun þeirra.

Nú leikur vafi á um túlkun á ýmsum lagaákvæðum sem snúa einmitt að ábyrgð ráðherrans sjálfs gagnvart þessu ferli öllu. Auðvitað hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við hæfi ráðherra til að samþykkja og skrifa undir tilboð frá föður sínum í þessu ferli öllu saman — auðvitað. Um þetta leikur líka augljóslega vafi þar sem ráðherra kannast ekkert við að hæfisreglur stjórnsýsluréttar hafi átt við í þessu tilfelli og raunar heldur því fram fullum fetum að faðir sinn hafi bara alveg mátt kaupa hlut í þessu útboði. Sömuleiðis, eins og ég tók fram áðan, þá leitast skýrsla ríkisendurskoðanda ekki við að svara né greina eftirfarandi spurningar um möguleg lögbrot, þ.e.: Hverjir voru skyldur fjármálaráðherra gagnvart sölunni og framkvæmd hennar? Hverjar voru eftirlitsskyldur ráðherrans? Hvernig var rannsóknarskyldu ráðherrans háttað? Hvernig sinnti hann þessum skyldum sínum? Gætti ráðherra að hæfi sínu í söluferlinu? Af þessum sökum og öðrum köllum við auðvitað enn þá eftir því að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis til að kafa ofan í ábyrgð ráðherra á þessu klúðri sem Bankasýslan augljóslega var.

Forseti. Ráðherra sagði einnig að rannsóknarnefnd Alþingis væri til þess, með leyfi forseta, „þegar menn sjá fyrir sér að það sé rökstuddur grunur um að menn hafi farið á svig við lög og það hafi orðið af því mikið tjón fyrir einhvern eða einhverja stærri almannahagsmuni“. Ráðherra klykkti út með því að hann sæi ekki neitt í þessu tilviki sem kalli á þess háttar rannsókn. Það kemur mér því miður ekkert á óvart að ráðherra sjái ekki þá gríðarlegu almannahagsmuni sem hér eru undir og það tjón sem orðið hefur af völdum þessarar framkvæmdar allrar, því það liggur hreinlega fyrir að framkvæmd þessarar sölu olli gríðarlegu tjóni á trausti almennings til fjármálakerfisins.

Hæstv. fjármálaráðherra kann að finnast það léttvægt. Honum kann að finnast það minni almannahagsmunir að traust ríki um sölu á ríkiseignum, á ríkisbanka af öllum eignum. Hann er þá ansi einangraður í þeirri afstöðu. Skoðum t.d. inngangsorðin í hvítbók starfshóps ráðherrans sjálfs um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ein af megináskorunum íslenska fjármálakerfisins hefur falist í neikvæðu viðhorfi almennings gagnvart kerfinu. Ekki hefur tekist að endurheimta traust hérlendis með sama hætti og á fjármálamörkuðum annarra þróaðra ríkja. Stefnumörkun og næstu skref stjórnvalda þurfa því að haldast í hendur við uppbyggingu trausts og virkt samtal við almenning.“

Neðar í skýrslunni stendur einnig, með leyfi forseta:

„Í könnun sem Gallup gerði fyrir starfshópinn kemur skýrt fram að almenningur ber lítið traust til bankakerfisins og að afstaða fólks er almennt afar neikvæð. Orð eins og græðgi og spilling virðast með því fyrsta sem mörgum kemur í hug þegar fjármálageirinn er nefndur til sögunnar. […]. Könnunin bendir til þess að vantraustið risti djúpt og að það muni taka langan tíma að byggja upp traust á ný. Tíu ár frá fjármálaáfalli hafa reynst of skammur tími til að vinna traustið til baka.“

Forseti. Tíu ár hafa ekki verið nóg til að byggja upp traust á bankakerfinu og úr þessu þurfum við væntanlega meira en tíu ár til að bæta úr því. Þetta sama fólk hefur nú lýst því yfir að þau ætli að breyta fyrirkomulaginu á sölu á eignarhlutum ríkisins á fjármálafyrirtækjum í grundvallaratriðum. En hvernig eigum við að treysta þeim til þess þegar þau neita að taka nokkra ábyrgð á því stórkostlega klúðri sem þessi sala var? Þegar þau neita að velta við öllum steinum eins og þau lofuðu í vor? Því miður, virðulegi forseti, hefði ég einmitt getað skrifað þessa frétt fyrir fjölmiðla að auðvitað eru stjórnarliðar ekki reiðubúnir að standa við gefin loforð um að skipa rannsóknarnefnd Alþingis til að velta við hverjum steini, eins og lofað var í vor, ef skýrsla Ríkisendurskoðunar skildi eftir ósvaraðar spurningar. Við bíðum enn eftir svörum við því hvort það sé virkilega í lagi að fjármálaráðherra Íslands megi selja pabba sínum hlut í banka á betri kjörum en almennt bjóðast.

Það varðar gífurlega almannahagsmuni að fá svör við þessari spurningu, virðulegi forseti, því þessi sami maður ætlar að halda áfram að selja eignir okkar allra eftir eigin hentisemi.